Innlent

Alvarlegt að bjóða ekki sálfræðiaðstoð

Svavar Hávarðsson skrifar
Hlutfallslega færri hætta námi í VMA en í öðrum framhaldsskólum.
Hlutfallslega færri hætta námi í VMA en í öðrum framhaldsskólum. Vísir/Auðunn
„Það er hægt að mæla árangurinn í tölum, en líka í því að fleiri nemendum líður vel. Þetta hefur góð áhrif á skólabraginn,“ segir Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri (VMA), spurður um þá ákvörðun skólans að hafa sálfræðing í starfsliði skólans, en um einsdæmi er að ræða í íslenskum framhaldsskólum.

Um nokkurt skeið hefur Kristrún Birgisdóttir, sérfræðingur hjá Námsmatsstofnun, hvatt til samvinnu á milli mennta-, heilbrigðis-, og velferðarkerfisins til að takast á við að minnka brotthvarf frá námi og segir hún að styðja þurfi fjárhagslega við bakið á þeim skólum sem taka við nemum í hvað mestri brotthvarfshættu.

Þetta er þriðji veturinn sem boðið er upp á þessa þjónustu í VMA en sálfræðingur skólans er í 60% starfi. Framtíðaráætlanir gera ráð fyrir að verkefninu verði haldið áfram, þó verið sé að glíma við erfiðan rekstur í VMA eins og öðrum framhaldsskólum.

Hjalti Jón Sveinsson
„Við bættum sálfræðingnum við til að auka stoðþjónustu við nemendur, og það að gefnu tilefni. Ýmis vandamál nemenda, ekki síst andleg vanlíðan, voru sífellt meira að koma inn á borð námsráðgjafanna. Sem ég held að sé tilfellið í flestum framhaldsskólunum,“ segir Hjalti og bætir við að um gæfuspor hafi verið að ræða enda mikið sótt í þetta úrræði af nemendum. Bæði er um einstaklingsviðtöl að ræða og hópastarf í hugrænni atferlismeðferð.

Ekki er gert ráð fyrir sálfræðingi í rekstrarmódeli skólanna í dag, og Hjalti segir það mjög alvarlegt. 

„Ég hef oft haft á orði að við eigum ekki aðeins að tryggja nemendum líkamlega heilsugæslu heldur ekki síður andlega. Það er mjög margt sem þessir krakkar eru að glíma við,“ segir Hjalti og nefnir erfið ár frá hruni í því samhengi. Einnig nefnir Hjalti nýja stöðu sem komin er upp með samfélagsmiðlunum, og dökkum hliðum þeirra eins og einelti og fleira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×