Innlent

Gylfi og Guðlaugur tókust á um tilurð foreldraorlofs

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þeir Guðlaugur Þór og Gylfi eru sammála um að ábatinn af EES-samningnum sé augljós.
Þeir Guðlaugur Þór og Gylfi eru sammála um að ábatinn af EES-samningnum sé augljós. fréttablaðið/pjetur
Það er mjög erfitt fyrir Íslendinga að leggja mat á óbeinan ábata af EES-samningnum, sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, á fundi Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í gær.

Gylfi tók ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, og fleirum þátt í panelumræðum á fundi Alþjóðamálastofnunar um framtíð EES-samningsins í gær. Þátttakendur í panel voru spurðir um beinan og óbeinan kostnað af EES-samningnum og líka hvaða ábata aðildarríkin hefðu haft af honum.

Gylfi sagði að einn þeirra þátta sem Íslendingar hefðu fengið í gegnum EES-samninginn væri foreldraorlof. „Ég held að allir Íslendingar taki undir þá skoðun að fæðingarorlof, eins og það er núna, sé eitthvað sem við vildum ekki vera án,“ sagði Gylfi.

Guðlaugur Þór Þórðarson sagði að EES-samningurinn hefði vissulega haft jákvæð áhrif en hann sæi ekki alveg hvað samningurinn hefði haft með fæðingarorlofið að gera.

Gylfi svaraði því til að Alþýðusambandið hefði um árabil reynt að knýja á um breytta löggjöf um foreldraorlof til að tryggja launþegum á almennum markaði, bæði körlum og konum, launað foreldraorlof. Það hafi ekki verið hægt. Breytingar hafi orðið þar á á árunum 1998 og 1999 eftir að Íslendingar gerðust aðilar að samningnum.

Gylfi sagði að í EES samningnum væri kveðið á um að þættir er vörðuðu félagsleg réttindi launþega væru úrlausnarefni fyrir aðila vinnumarkaðarins.

Aðilar vinnumarkaðarins í Evrópu hefðu komið sér saman um umgjörð varðandi launuð foreldraorlof og þá umgjörð átti stefná á að taka upp í hverju landi. „Sumir gerðu það með löggjöf og aðrir gerðu það með marghliða samkomulagi. Við ákváðum hér á Íslandi að taka upp þetta evrópska fyrirkomulag með löggjöf frá þinginu,“ sagði Gylfi.

Hann sagði að grunnurinn að þessu fyrirkomulagi hefði komið í gegnum EES-samninginn. „Við hefðum vel getað gert þetta fyrr en við gerðum það ekki,“ sagði hann.

„Ég hef tekið þátt í að móta ýmsa löggjöf á grundvelli EES-samningsins. Þetta er ekki ein þeirra,“ sagði Guðlaugur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×