Viðskipti innlent

SA vilja þjóðhagsráð um efnahagsmál

Samtök atvinnulífsins vilja að í Þjóðhagsráði sitji sérfræðingar sem geti metið stöðuna í efnahagslífinu.
Samtök atvinnulífsins vilja að í Þjóðhagsráði sitji sérfræðingar sem geti metið stöðuna í efnahagslífinu. fréttablaðið/gva
Samtök atvinnulífsins vilja að komið verði á fót sérstöku Þjóðhagsráði sem í eigi sæti oddvitar ríkisstjórnar á hverjum tíma, seðlabankastjóri og forsvarsmenn aðila vinnumarkaðar. Tillagan kemur fram í riti Samtaka atvinnulífsins, Gerum betur, sem gefið er út í tilefni af ársfundi SA.

Tillagan gerir ráð fyrir að Þjóðhagsráði verði falið með lögum að fylgjast með þróun efnahagsstærða og bregðast við aðsteðjandi vanda. Þannig væri tryggt að mikilvægustu aðilar að hagstjórninni vinni að sömu markmiðum og axli sameiginlega ábyrgð á efnahagslegum stöðugleika.

Ráðið hafi á sínum snærum hagfræðinga sem leggi sjálfstætt mat á þróun og horfur í efnahagslífinu og vinni úttekt á þróun ríkisfjármála, efnahagslegum forsendum kjarasamninga og framkvæmd þeirra ásamt skilvirkni peningastefnunnar.

Samkvæmt tillögunni kæmi ráðið saman 3-4 sinnum á ári og leggi formlegt mat á stöðu efnahagsmála hverju sinni og geri tillögur um nauðsynleg viðbrögð og úrbætur. Samtök atvinnulífsins telja að með þessu yrði brugðist við langvarandi efnahagslegum óstöðugleika sem þau telja að sé að mestu heimatilbúinn. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×