Innlent

20 dvelja nú í Kvennaathvarfinu

viktoría hermannsdóttir skrifar
Sigþrúður segir að rekja megi fjöldann sem nú dvelji í athvarfinu til átaks gegn heimilisofbeldi.
Sigþrúður segir að rekja megi fjöldann sem nú dvelji í athvarfinu til átaks gegn heimilisofbeldi. Fréttablaðið/Valli
Tólf konur og átta börn dvelja nú í Kvennaathvarfinu og er þetta með mesta fjölda sem þar hefur dvalið.

Sigþrúður Guðmundsdóttir, fræðslu- og framkvæmdastýra athvarfsins, segir að rekja megi þennan mikla fjölda til átaks gegn heimilisofbeldi sem staðið hefur yfir frá því í byrjun janúar. Átakið er samstarfsverkefni lögreglunnar, Velferðarsviðs og Barnaverndar. „Umræðan er að skila miklu. Við erum að heyra meira frá fagfólki sem vísar til okkar,“ segir hún.

Fjölgun hefur einnig orðið á viðtölum og konum sem koma í stutta stund í athvarfið meðan verið er að beita svokallaðri austurrískri leið þar sem ofbeldismaðurinn er fjarlægður af heimilinu.

Sigþrúður segir umræðu um heimilisofbeldi hafa verið mikla eftir að átakið fór í gang og það sé að skila sér í aukinni vitundavakningu í samfélaginu gegn heimilisofbeldi. „Fólk er meira vakandi fyrir þessu og að það sé hægt að fá hjálp. Þótt þetta hljómi illa og það sé óhugnanlegt, þá er samt jákvætt að umræðan sé farin af stað,“ segir Sigþrúður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×