Skoðun

Stefnubreyting í norsku laxeldi

Orri Vigfússon skrifar
Að undanförnu hafa norsk yfirvöld haldið neyðarfundi víða í Noregi vegna margs konar skaða sem orðið hefur af völdum laxeldis þar í landi undanfarin ár. Mengun, sníkjudýrafaraldrar og lyfjaðir sleppifiskar hafa kallað á gjörbreytta stefnu yfirvalda í laxeldismálum, markvissari vinnubrögð og margfalt strangari reglur til að freista þess að koma í veg fyrir alvarlega umhverfisskaða, t.d. að sjúkdómar berist úr eldisfiskum í villta fiskstofna.

Ríkisendurskoðunin í Noregi reið á vaðið með opinberri skýrslu (https://www.riksrevisjonen.no/en/Reports/Pages/aquaculture.aspx) þar sem bent var á að mikið skorti á vandaðan undirbúning, virkt eftirlit og heildarstefnu. Forystumenn rúmlega 60 sveitarfélaga í Noregi hafa skorið upp herör gegn laxeldi í sjó og telja þeir að laxalúsin í eldinu sé meginástæða þess að villtir laxastofnar í ám landsins hafi veikst verulega. Vísindaráð Noregs segir að ástæðu hruns laxastofna í 110 veiðiám í Noregi megi fyrst og fremst rekja til skaðlegra áhrifa af laxeldi í sjó.

Í nýjum reglum um sjókvíaeldi í Noregi er þess krafist að kvíar verði tryggilega lokaðar og að yfirvöld fái nægilega langan undirbúningstíma til að sinna fullkomnum rannsóknum og þolprófunum á vistkerfinu þar sem sótt er um leyfi til eldis. Fyrir þetta þurfa fiskeldisfyrirtækin að greiða 200 milljónir með hverri umsókn í óafturkræft framlag til að gera hinu opinbera kleift að sinna nauðsynlegum undirbúningi.

Varnaðarorð

Landeldi á fiski þróast nú hratt víða um heim. Þrjú slík framleiðslufyrirtæki á alþjóðavísu verða senn starfrækt á Reykjanesi, fyrirtækin Stolt Sea Farm, Íslandsbleikja (Samherji) og Matorka. Framtíðin virðist björt hjá þessum fyrirtækjum, með vistvænar framleiðslueiningar, sem skilja ekki eftir sig mengandi úrgang í náttúrunni. Gera má ráð fyrir að þessi fyrirtæki fái mun hærra verð fyrir sína vöru en þeir sem notast við úreltar framleiðsluaðferðir.

Hafrannsóknastofnunin í Björgvin, Dýralækningastofnunin í Noregi og Háskólinn í Björgvin hafa rannsakað neikvæð áhrif fiskeldis í opnum sjókvíum og sent yfirvöldum rökstuddar athugasemdir og varnaðarorð um nauðsyn gjörbreyttra vinnubragða og úrbóta á eldisstarfseminni. Mörg hundruð stofnanir víða um lönd vinna að verkefnum og rannsóknum á því hvað megi gera til að verja vistkerfið fyrir neikvæðum áhrifum af áðurgreindu eldi.

Hér á landi hefur hið opinbera sett reglur og lögleitt staðla um búnað fiskeldismannvirkja í sjó. Vandamálið er að atvinnuvegaráðuneytið hefur enga tilraun gert til að fylgja eftir þeim reglum sem ráðuneytið hefur sjálft sett og því er allt eftirlit með fiskeldisstöðvum í sjó mjög takmarkað.




Skoðun

Sjá meira


×