Gagnrýni

Þegar lífið flækist fyrir draumunum

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Við

David Nicholls.

Þýðing Arnar Matthíasson

BjarturDavid Nicholls sló hressilega í gegn með skáldsögunni Einn dagur sem seldist í milljónaupplögum um allan heim og úr var gerð þriggja vasaklúta kvikmynd sem fór álíka sigurför um heiminn. Væntingarnar voru því miklar fyrir næstu bók Nicholls enda tók hann sér heil fimm ár í að skrifa hana.

Afrakstur erfiðis hans er skáldsagan Við sem út kom hjá Bjarti á dögunum í frábærri þýðingu Arnars Matthíassonar og er skemmst frá því að segja að hún veldur engum vonbrigðum, nema síður sé.

Við segir sögu hjónanna Douglas og Connie Petersen sem eru rúmlega fimmtug og standa frammi fyrir því að límið í hjónabandinu muni leysast upp þegar einkasonurinn Albie fer í háskóla. Í örvæntingarfullri tilraun til að bjarga ástinni sem eitt sinn var drífur Douglas eiginkonu og son með sér í menningarferðalag um Evrópu, ferðalag sem verður að einhverju allt, allt öðru en hann hafði séð fyrir sér.

Douglas segir söguna í fyrstu persónu og sjónarhornið er alfarið bundið við hans upplifanir og tilfinningar. Hann er óttalegt meinleysisgrey, vill vel en er hræðilega blindur á sjálfan sig og ástvini sína svo úr verða endalaus vonbrigði á alla kanta.

Í endurlitsköflum sem dreift er reglulega inn á milli lýsinga á ferðalaginu rifjar hann upp ástarsögu þeirra Connie frá fyrsta kvöldi, en sú upprifjun gagnast honum lítt í því að skilja stöðuna sem þau standa frammi fyrir í nútímanum. Enn síður skilur hann hversu illa honum gengur að nálgast átján ára gamlan soninn, sem hann vissulega elskar út af lífinu en kann bara alls ekki að umgangast.

Sagan af samskiptum þeirra feðga er sterkasti þáttur bókarinnar, þótt ástarsagan sé vissulega áhugaverð, og það er hjartaskerandi að sjá hvernig Douglas blessaður klúðrar hverju tækifærinu af öðru til að mynda tengsl við soninn vegna þess hversu fastur hann er í eigin hugmyndum um hlutverk foreldris. Nokkuð sem flestir foreldrar, ekki síst feður, munu áreiðanlega tengja við og upplifa dálítinn hroll við sjálfsskoðunina sem óhjákvæmilega fylgir.

Styrkur Nicholls sem höfundar, fyrir utan dásamlegan húmorinn og næma tilfinningu fyrir mannlegum breyskleika, er hversu létt honum reynist að gera fullkomlega hversdagslega hluti, sem við þekkjum öll, áhugaverða og varpa á þá nýju ljósi.

Hver einasta persóna er dregin sterkum dráttum og lesandinn þekkir þetta fólk úr sínu daglega umhverfi, skilur það, finnur til með því og gleðst fyrir þess hönd þegar hlutirnir ganga upp. Þrátt fyrir hversdagslegt viðfangsefnið er sagan spennandi og áhugaverð og á köflum nánast óbærilega fyndin, þótt undirtónninn sé harmrænn.

Væri það ekki löngu útslitin klisja væri manni skapi næst að kalla söguna mannbætandi lesningu. Að minnsta kosti er fyllsta ástæða til að hvetja fólk til að lesa þessa bók, ekki síst miðaldra karla sem skilja ekki hvernig lífið kom þeim í þá stöðu að verða gamli leiðinlegi pabbinn sem afkvæmin ranghvolfa augum yfir.

Niðurstaða: Vel spunnin og áhrifarík saga sem spilar á alla strengi tilfinningaskalans.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.