Viðskipti innlent

Stjórnendur hækkuðu minnst

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Laun í byggingarstarfsemi hækkuðu um 7,4 prósent milli 2013 og 2014.
Laun í byggingarstarfsemi hækkuðu um 7,4 prósent milli 2013 og 2014. Fréttablaðið/GVA
Árshækkun launa milli fjórða ársfjórðungs 2013 og 2014 var 6,7 prósent að meðaltali að því er fram kemur í nýbirtum tölum Hagstofu Íslands.

„Hækkunin var 6,0 prósent á almennum vinnumarkaði og 8,4 prósent hjá opinberum starfsmönnum,“ segir í umfjöllun Hagstofunnar. Laun ríkisstarfsmanna hafi hækkað um 6,8 prósent og 10,3 hjá sveitarfélögum.

Milli 2013 og 2014 hafi regluleg laun hækkað um 6,0 prósent að meðaltali. „Starfsmenn á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 5,8 prósent, ríkisstarfsmenn um 6,2 prósent og starfsmenn sveitarfélaga um 6,5.“ Hækkun launa eftir starfsstéttum er sögð hafa verið á bilinu 5,2 til 7,0 prósent, mest hjá þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki, en minnst hjá stjórnendum.

Eftir atvinnugeirum var hækkun milli ára 7,4 prósent í byggingarstarfsemi, 6,8 prósent í samgöngum, 6,1 í fjármálaþjónustu, 6,0 í verslun og 4,6 prósent í iðnaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×