Skoðun

Fólk eða fjármunir? Hver eru markmið velferðarþjónustu?

María Rúnarsdóttir skrifar
Á síðustu vikum hafa borist fréttir af ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk þar sem augljóst er að skipulagsbreytingar á þjónustunni hafa leitt til þess að þjónustan er ekki með þeim hætti sem best verður á kosið, og er þá vægt til orða tekið.

Hagsmunasamtök hafa til margra ára kallað eftir auknu samráði um þessa mikilvægu þjónustu en svo virðist sem fatlað fólk hafi lítið verið haft með í undirbúningi að breytingum á þjónustunni. Þegar svo alvarlegur misbrestur kemur upp í viðkvæmri velferðarþjónustu vaknar spurningin um hvar ábyrgðin liggur og hver eru markmið þjónustunnar. Er markmiðið að veita góða þjónustu og hugsa hana alla leið út frá þörfum þess hóps sem hennar nýtur eða er markmiðið að veita þjónustuna þannig að hún kosti sem minnst?

Önnur frétt var í blöðunum nýverið sem vakti mig einnig til umhugsunar. Hrafnistu er ekki tryggt fjármagn til að halda uppi endurhæfingarinnlögn fyrir aldraða sem búa heima og hefur því tekið til þess að ráðs að segja upp starfsfólki og gera breytingar á þjónustunni. Hvert er markmiðið í þessu tilfelli? Er þjónustan hugsuð út frá skammtíma- eða langtímamarkmiðum?

Lög um málefni fatlaðs fólks og aldraðra marka skýra sýn á þjónustu við þessa tvo hópa. Markmið laga um málefni fatlaðs fólks er að tryggja sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Þar segir einnig að stjórnvöld skuli tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir. Markmið laga um málefni aldraðra er að aldraðir geti, eins lengi og unnt er, búið við eðlilegt heimilislíf en að jafnframt sé tryggð nauðsynleg stofnanaþjónusta þegar hennar er þörf. Með öðrum orðum má segja að markmiðið sé að tryggja þjónustu eins og endurhæfingarinnlagnir til þess að auka lífsgæði aldraðra og stuðla þannig að því að þeir geti búið sem lengst heima.

Ég skora á stjórnvöld að hafa markmið laga að leiðarljósi í skipulagningu velferðarþjónustu og setja fólk í forgang en ekki fjármuni. Það er mikilvægt að fara vel með almannafé og skipuleggja þjónustuna með sem hagkvæmustum hætti, en fólkið verður að vera í forgangi.




Skoðun

Sjá meira


×