Skoðun

Upprætum ofbeldi gegn konum

Guðrún Ögmundsdóttir skrifar
Við getum öll verið sammála um að við viljum búa í heimi þar sem konur lifa ekki í ótta við ofbeldi, að vera áreittar, nauðgað, brenndar og limlestar fyrir það eitt að vera konur! Þetta er ekki róttæk krafa. Þetta eru grundvallarmannréttindi.

Á morgun er landsmönnum er boðið að taka þátt í byltingu. Byltingu sem fer fram um heim allan. Á morgun mun milljarður koma saman til að dansa fyrir réttlæti, dansa fyrir heim þar sem konur og stúlkur þurfa ekki að óttast ofbeldi, fyrir heim þar sem þær njóta sömu tækifæra og karlmenn og strákar.

Milljarður rís er alþjóðlegur viðburður sem nú er haldinn í þriðja sinn. Á síðasta ári komu saman milljónir manna í 207 löndum og dansaði gegn kynbundnu ofbeldi. Íslendingar létu ekki sitt eftir liggja og 3.000 manns fylktu liði á dansgólf víðs vegar um landið. Í ár ætlum við að gera enn betur!

Ein af hverjum þremur konum verður fyrir ofbeldi á lífsleiðinni. Í ár ætlum við að dansa af krafti fyrir allar þær konur og stúlkur sem upplifað hafa ofbeldi og sýna í verki að okkur stendur ekki á sama.

Ofbeldi gegn konum er ein helsta fyrirstaða þess að árangur náist í jafnréttismálum og efnahagslegri þróun. Landsnefnd UN Women á Íslandi hefur verið dyggur stuðningsaðili Styrktarsjóðs Sameinuðu þjóðanna til afnáms ofbeldis gegn konum. Styrktarsjóðurinn er eini sjóðurinn í heiminum sem vinnur eingöngu að því að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum og er hann rekinn undir hatti UN Women. Ofbeldi gegn konum er útbreiddasta mannréttindabrot í heiminum í dag en fleiri konur látast eða tapa heilsu vegna ofbeldis heldur en malaríu, umferðarslysa, HIV og krabbameins ár hvert.

Á síðustu árum hafa fjölmargir landsmenn lagt málefninu lið með þátttöku í Systralagi UN Women. Með þátttöku í Systralaginu leggja styrktaraðilar starfi samtakanna lið við að uppræta ofbeldi, fátækt og óréttlæti sem konur og stúlkur í fátækustu löndum heims upplifa dag hvern.

Landsnefnd UN Women skorar á fyrirtæki, stofnanir og skóla að fjölmenna og sýna samstöðu í verki. Byltingin hefst klukkan 12, föstudaginn 13. febrúar, í Hörpu í Reykjavík, í Hofi á Akureyri, í félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði, íþróttahúsinu í Neskaupstað, Hljómahöllinni í Reykjanesbæ og í Menntaskólanum á Ísafirði. Mætum, dönsum og krefjumst þess að mannréttindi kvenna og stúlkna séu virt.




Skoðun

Sjá meira


×