Viðskipti innlent

Kvis í Sjávarklasann

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þær Hugrún og Hödd hafa nú fengið aðstöðu hjá Íslenska sjávarklasanum.
Þær Hugrún og Hödd hafa nú fengið aðstöðu hjá Íslenska sjávarklasanum. Mynd/ Sveinn Speight
Það veittu því margir athygli þegar sjónvarpskonurnar Hugrún Halldórsdóttir og Hödd Vilhjálmsdóttir tilkynntu á Facebook fyrir viku að þær hefðu opnað almannatengslafyrirtækið Kvis.

Þær hafa unnið að undirbúningi að stofnun fyrirtækisins um nokkurra vikna skeið. Í gær skrifuðu þær svo undir samning við Íslenska sjávarklasann um leigu á starfsaðstöðu hjá Klasanum á Grandagarði. „Þær hafa verið vonum framar,“ segir Hödd Vilhjálmsdóttir um viðtökurnar sem nýja fyrirtækið hefur fengið. En á hádegi í gær höfðu 2.200 látið sér líka við Facebook-síðu fyrirtækisins.

Hugrún segir að þær séu þegar byrjaðar að ræða við mögulega viðskiptavini, en hún hafi ekki tök á að nefna hverjir þeir eru á þessari stundu. „Við erum að bjóða upp á almenna almannatenglaþjónustu. Við leggjum áherslu á samfélagsmiðla og líka kynningarmyndbönd sem eru kannski nýjung fyrir almannatengla. Til dæmis fyrir hópefli innan fyrirtækja, eða í formi stemningarmyndbands fyrir árshátíðir, viðtal við forstjóra fyrirtækja til að koma skilaboðum til starfsfólks eða viðskiptavina,“ segir Hödd og bætir því við að þetta efni megi líka nýta sem kynningarefni fyrir heimasíður eða samfélagsmiðla.

Hödd bendir á að það sé ekki bara fjölmiðlareynslan sem nýtist þeim í starfi heldur líka menntunin. Hödd er lögfræðingur að mennt og Hugrún er hagfræðingur. Þær leggja báðar áherslu á að þjónustan verði blanda af gleði og alvöru. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×