Viðskipti innlent

Segir viðtökur íbúa við fluginu hafa verið frábærar

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Paul Kehoe, framkvæmdastjóri Birmingham-flugvallar, og Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.
Paul Kehoe, framkvæmdastjóri Birmingham-flugvallar, og Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.
Bókanir Breta í flug Icelandair frá Birmingham fyrir næstu mánuði eru yfir væntingum, að sögn Andrésar Jónssonar, framkvæmdastjóra Icelandair á Bretlandseyjum. Áætlunarflug Icelandair til borgarinnar hófst 5. febrúar síðastliðinn.

„Við erum bara rétt að byrja. Viðtökur íbúa hafa verið frábærar. Það þakka ég góðum undirbúningi starfsfólks míns í Bretlandi og nánu samstarfi við Birmingham-flugvöll. Við höfum trú á að með áframhaldandi markaðssetningu á Íslandi og þeirri þjónustu sem Icelandair hefur upp á að bjóða þá muni þessi flugleið vaxa jafnt og þétt á komandi árum,“ segir Andrés og bendir á að Birmingham sé önnur stærsta borg Bretlands. Íbúar sem búi í klukkustundar fjarlægð frá flugvellinum séu um tíu milljónir.

Andrés getur þess að Icelandair muni stytta flugtíma frá Birmingham til níu af fjórtán áfangastöðum flugfélagsins í Bandaríkjunum og Kanada. „Þetta er því mikill ávinningur fyrir fólk í Vestur-Miðlöndum sem áður hefur kosið að keyra suður til London eða norður til Manchester til að finna hentugusta flug vestur um haf. Einnig sjá flugvallaryfirvöld og ferðamálaráð borgarinnar mikil tækifæri í að fjölga heimsóknum íbúa frá Norður-Ameríku til svæðisins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×