Innlent

Fá ekki nauðsynlega bráðaþjónustu

Heiðdís Dögg Eiríksdóttir
Heiðdís Dögg Eiríksdóttir
Landlæknir tók nýlega á móti erindi frá Félagi heyrnarlausra þar sem hann er beðinn um að minna á rétt heyrnarlausra til heilbrigðisþjónustu. Þess eru dæmi að heyrnarlausum sé vísað frá þegar þeir mæta á síðdegisvakt hjá heilsugæslunni eða á bráðamóttökuna.

Heiðdís Dögg Eiríksdóttir, formaður Félags heyrnarlausra, segir vandann ekki felast í fjárskorti heldur viðhorfi til heyrnarlausra.

„Svörin sem við höfum fengið eru að sjúklingar eigi að panta tíma en ekki nýta sér síðdegisvakt eða bráðaþjónustu. En við höfum sama rétt og aðrir sjúklingar til að sækja okkar þjónustu, sama hvort það er á dagvinnutíma, síðdegisvakt eða á bráðaþjónustu. Það er ekki skortur á fé vegna túlkaþjónustu í heilbrigðisþjónustunni. Það er aðallega þörf á að laga viðhorfið.“

Rétturinn er skýr

Heiðdís bendir á réttinn til bestu mögulegu læknisþjónustu og rétt heyrnarlausra til að fá túlk. „Sjúklingar eiga ekki að þurfa að berjast fyrir, útskýra og hamast í því að fá túlkaþjónustu. Heilbrigðisstéttin á að tryggja þetta og heilbrigðisstarfsfólk þarf að gæta þess að líta á túlkaþjónustuna sem sjálfsögð mannréttindi, ekki líta á sjúklinga með einhvern verðmiða, eða meta það hvort sjúklingur þurfi túlk eða jafnvel ýta undir að þetta gangi upp með varalestri, skrifa saman á blað. Það eru ekki eðlileg samskipti.“

Heiðdís segir það jafnvel hafa komið fyrir að læknir samþykki ekki túlk í viðtölum við sjúklinga. „Við höfum ítrekað þurft að hafa samskipti og minna heilbrigðisstéttina á mikilvægi þess að sjúklingur á rétt á túlkaþjónustu. Það hefur komið fyrir að læknir samþykki ekki túlk í viðtölum. Heiðdís segir svör sem heyrnarlausir fá þegar þeir leita heilbrigðisþjónustu brjóta á rétti þeirra.

Skortur á túlkaþjónustu hefur komið niður á heilbrigðisþjónustu til þeirra. „Rannsóknir sýna að heyrnarlausir útskrifast síðar en fólk með fulla heyrn, sem þýðir að þeir eru ekki að fá meðferðarúrræði á sínum forsendum. Fagfólk skortir þekkingu á þeirra menningarheimi og hefur ekki þekkingu á íslensku táknmáli.“

Kolbrún Völkudóttir sagði frá því í viðtali við Fréttablaðið að brotið hefði verið á rétti hennar til réttrar læknisþjónustu á barna -og unglingageðdeild. Fréttablaðið/ Ernir
Læknamistök á BUGL

Á sautjánda ári lagðist Kolbrún Völkudóttir inn á BUGL og dvaldi þar um margra mánaða skeið vegna þunglyndis og kvíða. Kolbrún er heyrnarlaus en með kuðungsígræðslu og heyrnarskerðing hennar er veruleg.

Í viðtalið í helgarblaði Fréttablaðsins lýsti Kolbrún læknismeðferð sinni á BUGL og gagnrýndi að ekki hefði verið tekið tillit til heyrnarleysis hennar.

„Á BUGL var ég sett á sterk lyf sem báru ekki tilætlaðan árangur. Ég reyndi að tjá mig, gerði tilraunir til að fá athygli en enginn skildi mig og enginn notaði táknmál,“ sagði Kolbrún um vist sína á spítalanum.

„Þessi lyfjagjöf var að mínu mati ákveðin læknamistök.“

Ólafur Guðmundsson, yfirlæknir á BUGL, segist ekki geta tjáð sig um einstaka sjúklinga en segir þó að táknmálstúlkur sé ávallt fenginn að meðferð heyrnarskerts fólks. „Við fáum alltaf táknmálstúlk í þessum tilvikum og ég geri fastlega ráð fyrir að það hafi líka verið gert þá.“

Aldrei bein samskipti

Kolbrún útskýrir að þótt túlkur komi og aðstoði í viðtölum þá verði aldrei bein samskipti við lækna. „Það kom túlkur í viðtölum en það verða aldrei bein samskipti við læknana. Það hefði átt að senda mig á meðferðarstað þar sem talað er á mínu máli, táknmáli.“

Hún segir þrjú ár hafa liðið þar til hún var send til Svíþjóðar í sérmeðferðarúrræði fyrir heyrnarlausa. Fjölskylda hennar lagði fram stjórnsýslukæru vegna læknismeðferðar hennar hér á landi.

„Það gerði það að verkum að meðferðin fyrir mig úti var borguð úr ráðherrasjóði en það tók þrjú ár að fá það í gegn.

Mér finnst hafa verið brotið á mér. Ég er ekkert að setja út á starfsfólkið, það vann vel og reyndi sitt besta en við töluðum ekki sama tungumálið.“

Vanmáttug yfirvöld

Heiðdís Dögg segir atvik sem þessi reglulega koma til kasta samtakanna. „Þetta er nokkuð sem er að koma upp þrátt fyrir lög um réttindi sjúklinga, 5. gr. sem kveður á um að sjúklingur eigi rétt á túlkaþjónustu ef hann talar ekki íslensku eða notar táknmál.“

Heiðdís nefnir enn fleiri dæmi um atvik þar sem Félag heyrnarlausra hefur þurft að beita sér. „Það hefur t.d. komið fyrir í áfengismeðferð SÁÁ, og sér í lagi í geðheilbrigðisþjónustunni. Við hjá Félagi heyrnarlausra höfum fengið þau tilmæli frá félagsþjónustu og geðheilbrigðissviði að þau séu vanmáttug þegar að þessu kemur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×