Innlent

Villandi gögn hjá sparisjóði

kolbeinn óttarsson proppé skrifar
Staða Sparisjóðs Bolungarvíkur er sögð vera mun verri en gefið var upp við samruna við Sparisjóð Norðurlands.
Staða Sparisjóðs Bolungarvíkur er sögð vera mun verri en gefið var upp við samruna við Sparisjóð Norðurlands. vísir/Pjetur
Sparisjóður Norðurlands hefur þurft að fara í verulega niðurfærslu á lánasafni fyrrverandi Sparisjóðs Bolungarvíkur, en samruni sjóðanna tveggja, undir heiti og kennitölu Sparisjóðs Norðurlands, varð í fyrra. Í bréfi sem sparisjóðsstjóri og stjórnarformaður Sparisjóðs Norðurlands sendu stofnfjáreigendum sameinaða sjóðsins kemur fram að upplýsingar sem fyrir lágu um Sparisjóð Bolungarvíkur hafi verið „mjög villandi um raunverulega stöðu sjóðsins“.

Samruninn var samþykktur í júní í fyrra og fyrir hann var gerð úttekt á sjóðunum tveimur. Stjórnendur sameinaðs sjóðs standa nú frammi fyrir því að lánasafn Sparisjóðs Bolungarvíkur hafi verið ofmetið. Í bréfinu til stofnfjáreigendanna segir: „Við skoðun á lánasafni fyrrum Sparisjóðs Bolungarvíkur hefur komið í ljós að lánasafn sjóðsins er verulega laskað og stendur engan veginn undir þeim upphæðum sem bókaðar hafa verið í reikningum sjóðsins um síðastliðin áramót [2013/14]. Við gerð sex mánaða uppgjörs fyrir sameinaðan sjóð nú er það niðurstaða málsins að færa þurfi Bolungarvíkurlánasafnið niður um 207 milljónir kr.“

Hólmgeir Karlsson, stjórnarformaður sameinaðs Sparisjóðs Norðurlands, segir raunverulega stöðu Sparisjóðs Bolungarvíkur hafa komið núverandi stjórnendum í opna skjöldu.

„Hún kom okkur verulega á óvart og er ekki í samræmi við þau gögn sem lögð voru fram við samrunaáætlun.“

Sami endurskoðandi beggja sparisjóða

Gunnar Þorvarðarson, endurskoðandi hjá Deloitte, skrifar undir ársreikning Sparisjóðs Bolungarvíkur fyrir árið 2013, þar sem ekkert kemur fram um yfirvofandi niðurfærslu. Nokkrum mánuðum síðar skrifar hann undir árshlutareikning Sparisjóðs Norðurlands þar sem segir frá nauðsyn þess að fara í „verulegra niðurfærslu á lánasafni fyrrum Sparisjóðs Bolungarvíkur sem ekki lá fyrir við samruna“.

Uppfært 17. febrúar klukkan 10:15

Áréttingi frá Deloitte:

Vegna fréttaflutnings af málefnum Sparisjóðs Bolungarvíkur vill Deloitte ehf. benda á að áritun félagsins á ársreikningi Sparisjóðs Bolungarvíkur fyrir árið 2013 innheldur bæði fyrirvara vegna færslu skattinneignar og ábendingarmálsgrein vegna óvissu um mat á eignum sparisjóðsins og rekstrarhæfi. Vísað er í skýringar 34 og 35 í ársreikningi í því sambandi. Í skýringu 34 segir meðal annars: „Stjórnendur hafa lagt mat á útlán í árslok 2013 miðað við forsendur sem lágu fyrir en vegna þessara óvenjulegu aðstæðna ríkir óvissa um mat útlána sjóðsins sem gæti haft áhrif á stöðu og rekstrarhæfi hans.“

Einnig kemur fram að samruninn hafi verið samþykktur í júní í fyrra og fyrir hann var gerð úttekt á sjóðunum tveimur. Deloitte vill benda á að félagið kom ekki að þessum úttektum fyrir sjóðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×