Skoðun

Hryðjuverk og mennska

Derya Ösdilek og Ersan Kouyuncu skrifar
Á liðnum vikum hefur heimsbyggðin horft upp á hryðjuverk í ólíkum heimshornum, auk árásarinnar á Charlie Hebdo, sem hver heilvita manneskja fordæmir. Í kjölfarið er sjónum á ný beint að hinum íslamska heimi og eðlilega eru Vesturlönd uggandi um öryggi sitt.

Það öryggi og sá stöðugleiki sem náðst hefur á Vesturlöndum er árangurinn af löngu og erfiðu ferli og er því miður ekki að til að dreifa í þeim löndum sem stöðugt glíma við afleiðingar átaka. Sú bylting sem tækniframfarir á sviði samgangna og samskiptamiðla er hefur gert heiminn að alheimsþorpi og því eru átök og aðstæður fólks nær okkur en nokkru sinni fyrr þrátt fyrir langar vegalengdir. Af þeim sökum er þess krafist að einstaklingar og stjórnvöld leggist á eitt við að skapa og styðja við menningu sem gerir okkur kleift að búa saman í sátt og virðingu.

Hryðjuverk, hvar sem þau eru framin, krefjast þess að mannkynið allt taki höndum saman um að sporna gegn þeim. Sem manneskjur þurfum við að sameinast um gildi sem hafna aðferðum hryðjuverkamanna. Í trúarbrögðum Abrahams, jafnt sem hinum stóru siðferðilegu kenningum og heimspekiskólum, er að finna næg rök til að standa vörð um mannréttindi og mannhelgi. Því ættum við sem manneskjur öll að geta staðið saman andspænis vá hryðjuverka og sameinast í samtali sem grundvallast á umburðarlyndi og virðingu.

Í því samhengi er mikilvægt að nefna að Íslam er í dag órofa hluti evrópskrar menningar. Í kjölfar þess að afar okkar og ömmur fluttu til Evrópu erum við sem þetta ritum múslimar sem eru fæddir og uppaldir í Evrópu. Eins og við erum hluti af Vesturlöndum eru Vesturlöndin hluti af okkur. Við erum ekki einungis evrópskir múslimar, heldur samsömum við okkur gildum mannréttinda og viljum standa vörð um lýðræði, borgaralegar skyldur, fjölmenningarlegt samtal og virðingu fyrir landslögum.

Þeirra eigin vanskapnaður

Að því sögðu getum við fullyrt að hver sú ógn sem birtist gegn þeirri lýðræðishefð er ógn við það samfélag sem við tilheyrum og erum hluti af. Sú staðreynd að tvö fórnarlamba árásarinnar á Charlie Hebdo voru múslimar og að það var múslimi sem bjargaði lífi 12 manns í hildarleiknum undirstrikar það. Það sýnir jafnframt að hryðjuverk virða ekki mörk trúarbragða, hugmyndafræði eða þjóðernis þótt framin séu í þeirra nafni. Íslam hefur aldrei samþykkt hryðjuverk sem löggilda aðferð. Þvert á móti segir í okkar helgu bók að það að myrða saklausa manneskju jafngildi því að myrða mennskuna sjálfa. Í Íslam er mannhelgi og virðing fyrir lífinu á meðal grunngilda. Enginn einstaklingur má taka sér það vald að útdeila öðrum refsingu með eigin hendi, hvort sem viðkomandi er sekur eða saklaus.

Frá þessum sjónarhóli er með engum hætti hægt að samþykkja hryðjuverk á grundvelli Íslams. Hugmyndafræði hryðjuverkamanna er þeirra eigin vanskapnaður og byggir á ómanneskjulegum ásetningi. Réttur manneskjunnar til lífs er og skyldi ávallt vera heilagur og það hefur enginn leyfi til að svipta annan þeim rétti. Við viljum loks vitna í kennslu hins tyrkneska fræðimanns Fethullah Gülen: „Múslimi getur ekki verið hryðjuverkamaður og hryðjaverkamaður getur ekki verið múslimi”.




Skoðun

Sjá meira


×