Skoðun

Hafnfirðingar krefjast úrbóta í samgöngumálum

Ó. Ingi Tómasson skrifar
Í umræðunni um rammaáætlun er talað um verndar-, bið- og nýtingarflokka. Þegar vegaætlun er rædd mætti ef til vill setja vegi landsins í bið- og framkvæmdaflokka. Þá má segja að höfuðborgarsvæðið og þá sér í lagi Hafnarfjörður sé í biðflokki vegaáætlunar og hafi verið þar mjög lengi. Það sem lendir í framkvæmdaflokki eru vegir og jarðgöng þar sem ákveðnustu og háværustu þingmennirnir búa. Það lítur þannig út fyrir mér að þegar kemur að vegaáætlun þá berjast þingmenn landsbyggðarinnar fyrir fé í sitt kjördæmi en þingmenn höfuðborgarsvæðisins kjósa að sitja hjá. Þetta er það sem gjarnan er nefnd landsbyggðarpólitík.

Hverfum haldið í gíslingu

Síðustu stórframkvæmdir í vegamálum í Hafnarfirði voru í kringum árið 2002 þegar Reykjanesbraut var færð austur fyrir kirkjugarðinn (um 2-3 km). Frá þeim tíma hefur farþegum sem fara í gegnum Leifsstöð fjölgað gríðarlega og eru nú rúmlega tvær milljónir á ári og aka þeir flestir í gegnum Hafnarfjörð. Íbúar bæjarins eru ríflega 27.000 eða um 8% þjóðarinnar, fjármagn til vegamála er í engu samræmi við íbúafjöldann og niðurstaðan er að íbúar eiga í miklum vandræðum með að komast út úr hverfunum, hægt hefur verulega á uppbyggingu iðnaðar og þjónustu þar sem aðgengi að fyrirtækjum er algjörlega óásættanlegt. Niðurstaða þess fyrir Hafnarfjörð að vera í biðflokki vegaáætlunar svo árum og áratugum skiptir er að íbúum og fyrirtækjum er haldið í gíslingu inni í hverfunum.

Jafnræðis gætt

Krafa okkar Hafnfirðinga er sú að jafnræðis sé gætt í úthlutun fjármagns til vegamála. Ég hef skilning á að stundum þarf að grípa til sérstakra aðgerða til að leysa bráðan vanda en ég á bágt með að trúa því að slík tilvik séu að mestu bundin við landsbyggðina. Það er krafa okkar Hafnfirðinga að samgöngumál í og við Hafnarfjörð verði sett í forgang. Dæmi um framkvæmdir og samgöngubætur sem lofað hefur verið er Reykjanesbraut frá kirkjugarði suður fyrir Straum, Krísuvíkurvegur með mislægum gatnamótum við Reykjanesbraut, ofanbyggðavegur og lausn á vanda þeirra sem þurfa að komast út úr Setbergshverfinu svo eitthvað sé nefnt. Að lokum geri ég þá kröfu til þingmanna kjördæmisins að þeir stundi landsbyggðarpólitík þegar kemur að úthlutun fjármuna til vegaframkvæmda.




Skoðun

Sjá meira


×