Innlent

Föst með tvö ung börn í bílum

Ferðalangarnir sem festust á hálendinu aðfaranótt mánudags eru komnir heilir á húfi til byggða.
Ferðalangarnir sem festust á hálendinu aðfaranótt mánudags eru komnir heilir á húfi til byggða.
Viðamikil björgunaraðgerð stóð yfir í gær á Norðurlandi en 22 björgunarsveitarmenn fóru upp á hálendið til að bjarga sjö íslenskum ferðalöngum, þar af tveimur börnum, sem voru þar fastir í tveimur jeppum. Þrjár björgunarsveitir tóku þátt í aðgerðum, Súlur, björgunarsveit Akureyrar, Hjálparsveitin Dalbjörg frá Eyjafjarðarsveit og Björgunarsveitin Þingey frá Aðaldal.

Fólkið hafði ekki verið í símasambandi síðan klukkan tíu á sunnudagskvöld þegar það óskaði eftir aðstoð björgunarsveitarinnar. Björgunarsveitarmenn komu fólkinu til aðstoðar um áttaleytið í gærmorgun sem var þá heilt á húfi, en það hafði þá hafst við í einum bílanna um nóttina.

„Fólkið var nokkuð vel búið og gerði það rétta, að halda kyrru fyrir í bílnum,“ segir Skúli Árnason, formaður björgunarsveitarinnar Súlna, í samtali við Fréttablaðið. Fólkið var í jeppaferð og hafði komið úr Kerlingafjöllum og var á leið ofan í Bárðardal með viðkomu í Bárðarfelli. Er þessi leið töluvert algeng að sögn Skúla. „Einn bílanna bilaði og stoppuðu hinir bílarnir til þess að veita aðstoð en festust í kjölfarið. Þau festu sig á Dragleið sem er á milli Laugafells og Sprengisandsleiðar.“ Fólkið kom heilt á húfi til Akureyrar um níuleytið í gærkvöldi og fékk heita súpu. Skúli segir ferðalangana alla mjög þreytta og uppgefna, einnig björgunarsveitarmennina. „Þetta er búinn að vera mjög langur sólarhringur hjá þeim öllum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×