Innlent

Verðum að minnka segir skólameistarinn

kristjana björg guðbrandsdóttir skrifar
Nemendaígildum fækkar um 18,4 prósent og skólinn á að einbeita sér að kjarnastarfsemi.
Nemendaígildum fækkar um 18,4 prósent og skólinn á að einbeita sér að kjarnastarfsemi. Fréttablaðið/Hrafnhildur Hallvarðsdóttir
„Ég lít á fjárlög fyrir árið 2015 sem niðurstöðu. Niðurstaðan er sú að það er verið að minnka skólann. Hvatinn til þess að hafa sem flesta nemendur er horfinn,“ segir Jón Eggert Bragason, skólastjóri Fjölbrautaskóla Snæfellinga.

Slæm rekstrarstaða fjölbrautaskólans var til umræðu í bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar í lok síðustu viku. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2015 eru rekstrar- og faglegir möguleikar Fjölbrautaskóla Snæfellinga skertir verulega. Niðurskurðurinn byggir einkum á tveimur forsendum. Annars vegar er nemendaígildum við skólann fækkað úr 185 í 151 eða um 18,4 prósent. Hins vegar að skólinn eigi að einbeita sér að „kjarnastarfsemi“ framhaldsskóla, sem sé að mennta dagskólanemendur á hefðbundnum framhaldsskólaaldri undir 25 ára. Skólinn eigi því ekki að sækjast eftir dreif- og fjarnemendum. Þessi niðurstaða fjárlaga þykir munu veikja skólann verulega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×