Skoðun

Af hverju að gera við það sem er ekki bilað?

Loftur Atli Eiríksson skrifar
Sonur minn 14 ára hefur notast við Ferðaþjónustu fatlaðra um árabil. Gæði þjónustunnar hafa verið til fyrirmyndar þar til henni var breytt 1. nóvember sl. og hafa þau fyrst og fremst grundvallast á góðu starfsfólki. Þjónustan hefur verið persónuleg og bílstjórarnir margir hverjir orðið eins og fjölskylduvinir.

Fyrirkomulagið hefur verið með þeim hætti að sömu bílstjórarnir hafa jafnan sótt hann á morgnana og þekkja þeir fullkomlega inn á hjálpartækin, sem drengurinn notar og hvernig best er að umgangast þau þannig að ekki verði slys á gangleiðinni til og frá ferðaþjónustubílnum. Með tímanum hafa bílstjórarnir jafnframt lært inn á fötlun sonar míns og hvernig best er að aðstoða hann á sem þægilegastan og markvissastan hátt fyrir báða aðila. Það fylgir óhjákvæmilega öryggisleysi því að vera fatlaður því fatlað fólk býr ekki yfir sömu viðbragðshæfni og aðrir. Þess vegna er sérstaklega mikilvægt að skjólstæðingar ferðaþjónustunnar geti treyst þeim sem framkvæma þjónustuna. Það tekur tíma að byggja upp það traust og það verður ekki til öðruvísi en að þjónustan sé persónuleg.

Ekki er að sjá að þessu hafi verið gefinn gaumur við innleiðingu á nýju tölvukerfi Ferðaþjónustu fatlaðra, sem er sorglegt því persónuleg þjónusta byggð á margra ára reynslu er mikilvægustu og dýrmætustu gæði þessa fyrirtækis. Líkt og aðrir notendur þjónustunnar hefur sonur minn lent í ýmsum miðurgóðum og erfiðum uppákomum eftir breytinguna sem ekki er ástæða til að tíunda hér en ef eitthvað bar útaf áður fyrr við þjónustuna var einfalt að lagfæra það með einu símtali. Ég hef áhyggjur af að sú þekking og reynsla sem var til staðar á öllum þjónustustigum Ferðaþjónustu fatlaðra sé að fara forgörðum vegna nýinnleiddra breytinga.

Hlusta ber á notendur

Þær hafa jafnframt haft í för með sér aukið álag á bílstjórana sem eru núna alltaf að flýta sér og verða óþolinmóðir og stressaðir í viðleitni sinni við að þjóna tölvukerfinu frekar en notendum þjónustunnar. Óþolinmæði og stress á ekki við þegar verið er að þjónusta fatlað fólk.

Því vil ég hvetja þá sem eru að vinna við að endurskoða breytingar á þjónustunni að hlusta vel á notendur hennar því þeir vita best hvað skiptir þá máli. Vegna aðstæðna sinna þarf fatlað fólk jafnan að temja sér þolinmæði og umburðarlyndi í dagsins önn og er flest seinþreytt til vandræða. Vissulega hljómaði sá ávinningur, sem kynntur var með nýja tölvukerfinu margur hver ágætlega, eins og að hægt er að panta ferðir með styttri fyrirvara. Fórnarkostnaðurinn er hins vegar allt of mikill. Það sem við óskum frekar eftir af Ferðaþjónustu fatlaðra er áreiðanleiki, öryggi og sú persónulega þjónusta sem við vorum vön að njóta. Það þarf ekki að finna upp hjólið aftur. Af hverju að gera við það sem er ekki bilað?




Skoðun

Sjá meira


×