Handbolti

Vissi ekki hversu mikil ábyrgð fylgdi markvarðarstöðunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar
Björgvin Páll Gústavsson hefur staðið sig mjög vel á heimsmeistaramótinu í Katar.
Björgvin Páll Gústavsson hefur staðið sig mjög vel á heimsmeistaramótinu í Katar. vísir/eva björk
Björgvin Páll Gústavsson hefur átt gott mót til þessa á HM í Katar – betra en margir þorðu að vona enda höfðu margir áhyggjur af markvörslunni fyrir mót.

Hann var magnaður á löngum köflum gegn Frakklandi þar sem Ísland spilaði vel og gerði jafntefli við Evrópumeistarana eftir að hafa leitt lengi vel í leiknum.

„Ég vaknaði sáttur í morgun en þreyttur,“ sagði Björgvin Páll við Fréttablaðið á hóteli íslenska liðsins í Doha í gær. „Leikurinn er gott veganesti fyrir framhaldið. Þar kom þessi íslenska skapgerð og geðveiki fram sem við þurfum á að halda.“

vísir/eva björk
Ábyrgð markvarða mikil

Björgvin Páll er eins og svo margir markverðir, hvort sem er í handbolta eða fótbolta, gagnrýndur þegar hann á slæman dag. Hann segir sér hafa gengið misvel í gegnum tíðina að taka gagnrýninni.

„Flest gagnrýni á rétt á sér en þegar ég valdi þessa stöðu átta ára gamall vissi ég ekki hversu mikil ábyrgð henni fylgir. Ef markvarslan klikkar er bara bent á einn eða tvo menn. Það er hægt að benda á fleiri ef vörn eða sókn klikkar,“ segir hann. „Þetta er því mikil ábyrgð en ein af ástæðunum fyrir því að ég er enn að spila handbolta er að þetta er áskorun sem gaman er að takast á við.“

Björgvin Páll komst snemma í gang á mótinu og segir að það hafi verið afar mikilvægt. „Að fá þessa góðu tilfinningu fyrir markvörslunni skiptir miklu máli. Æfingaleikirnir fyrir mót gengu upp og ofan en ég átti von á að þetta myndi smella í mótinu því vörnin okkar er háð því að það séu miklar tilfinningar og ákveðin geðveiki í gangi. Þegar hún kemur er auðvelt að fylgja með.“

Hann segist vilja halda sér stöðugum með því að verja minnst 12-14 skot í leik. „Það hefur gengið vel í fyrstu þremur leikjum okkar á mótinu.“

vísir/eva björk
Eins og fífl í fótbolta

Þegar illa gengur lætur Björgvin stundum öllum illum látum inni á vellinum. Hann sparkar og kýlir markrammann og fékk til að mynda tiltal frá dómara á mótinu eftir slíka uppákomu. Björgvin þagði en gaf honum illt auga á móti.

„Tilfinningar eru stór hluti af mínum leik – hvort sem þær eru neikvæðar eða jákvæðar. Þegar illa gengur á ég til dæmis það til að vera ósanngjarn við samherjana. Það gleymist þá bara eftir leik,“ segir hann.

„En tilfinningar eru hluti af þessu og það er erfitt að stjórna þeim bara í aðra áttina. Það verður að vera kveikt á þeim og það hjálpar manni að halda einbeitingu á stórmótum.“

Hann segir að það sé ekki þreytandi að takast á við þessar miklu sveiflur sem fylgja því að standa í handboltamarkinu, ekki síst fyrir tilfinningaveru eins og Björgvin Pál.

„Nei, ég er svo rólegur utan vallarins að þetta jafnast út. Ég á góða konu sem heldur mér á jörðinni og það er lítill æsingur í mér utan handboltans – og reyndar fótboltans líka. Ég verð líka eins og fífl,“ sagði hann og hló.

„Þegar ég var yngri var ég á útopnu allan daginn en ég hef náð að beina orkunni að handboltanum og skilja þetta allt saman eftir inni á vellinum, hvort sem er á æfingum eða í leikjum.“

Hann segir að það eigi við um sig eins og aðra – það þýði ekkert að láta mótlætið fara með sig á stórmótum þar sem stutt er á milli leikja.

„Þá er best að ofhugsa ekki hlutina og hengja sig ekki of mikið á einn leik, hvort sem það gekk vel eða illa í honum. Það þarf að jafna sig fljótt og vel á milli leikja, bæði líkamlega sem og andlega, sem er afar stór þáttur hjá markvörðum.“

vísir/eva björk
Þekkir tékkensku skytturnar vel

Ísland mætir Tékklandi í kvöld og þá mun mæða á Björgvini Páli að verjast stórskyttunum Filip Jicha, leikmanni Keil, og Pavel Horak, sem er hjá Füchse Berlin.

„Ég hef oft spilað gegn þeim báðum og við þurfum að halda þeim niðri til að vinna leikinn. Tékkarnir hafa ekki komist almennilega í gang í þessu móti og ég vona að þeim takist það ekki á morgun því sigur mun tryggja okkur sæti í 16-liða úrslitunum. Þetta er því afar mikilvægur leikur.“


Tengdar fréttir

Dagur: Leikmenn geta ekkert sagt

Dagur Sigurðsson ákvað að breyta um varnartaktík nokkrum klukkutímum fyrir leikinn gegn Dönum á HM.

Aron Kristjáns: Við vorum að spila betur saman

Aron Kristjánsson, þjálfari íslenska landsliðsins, var eins og leikmennirnir ánægður með leikinn gegn Frökkum. Það er oft erfitt að sjá á þjálfaranum hvort hann er kátur eða glaður því hann heldur ætíð ró sinni hvernig sem á gengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×