Viðskipti innlent

Stofna nýtt félag um skiparekstur

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Eimskip mun eiga 80 prósent í hinu nýstofnaða félagi en König & Cie. 20 prósent.
Eimskip mun eiga 80 prósent í hinu nýstofnaða félagi en König & Cie. 20 prósent. Fréttablaðið/GVA
Eimskip og König & Cie. Holding GmbH & Co. KG í Þýskalandi hafa stofnað félag um skiparekstur undir nafninu Eimskip & KCie. GmbH & Co. KG. Nýja félagið verður sérhæft í rekstri skipa, viðhaldi og viðskiptum með skip, segir í tilkynningu frá félaginu. Eimskip mun eiga 80% prósent í félaginu á móti 20% eignarhlut König & Cie.

Fram kemur í tilkynningunni að nýja félagið muni leggja áherslu á að ná fram sem mestum samlegðaráhrifum í rekstri skipa, þar með talið tækniþjónustu, leigu á skipum, kaupum og sölu, nýbyggingum og ýmsum öðrum verkefnum sem snúa að rekstri skipa og fjárfestingum.

Félagið mun hafa aðsetur í aðalstöðvum König & Cie. í Hamborg. Framkvæmdastjórar þess verða Ásbjörn Skúlason frá Eimskip og Jens Mahnke frá König & Cie. Holding.

„Það er ánægjulegt að geta sagt frá stofnun þessa fyrirtækis með König & Cie. og bind ég miklar vonir við samstarfið. Markmið okkar hefur í gegnum árin verið að ná fram sem mestri rekstrarhagræðingu út úr skipaflotanum og auka öryggi skipaflota Eimskips á hverjum tíma. Við teljum að með þessu samstarfi við König & Cie. muni Eimskip takast að styrkja sinn rekstur enn frekar og fá aðgang að yfirgripsmikilli alþjóðlegri þekkingu á rekstri skipa,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×