Skoðun

Að hætti Hattie’s og Bartoszeks

Jón Þorvarðarson skrifar
Í pistlinum „Þarf að fella fólk?“ í Fréttablaðinu 27. desember er Pawel Bartoszek þeirrar skoðunar að „ef við fáum betra menntakerfi með því að „minnka kröfur“ þá eigum við að gera það, sama þótt einhverjum finnist hans skírteini minna virði í kjölfarið“. Því hver er valkosturinn, spyr Pawel, að láta fólk endurtaka námskeið? Máli sínu til stuðnings vísar Pawel í nýsjálenska kennslufræðinginn John Hattie sem telur það skelfilega ráðstöfun að láta nemendur sitja eftir í námi. Hattie hefur til langs tíma starfað sem pólitískur skólaráðgjafi stjórnvalda og hefur haft mikil áhrif sem slíkur. Kenningar hans hafa hins vegar sætt töluverðri gagnrýni enda taka þær ekkert tillit til ólíkra samsetninga hópa/bekkja – nemendur eru steyptir í sama (tölfræði)mótið. Félagslegur bakgrunnur þeirra fær enga athygli og ekki er tekið tillit til þeirra ólíku vandamála sem kunna að hrjá nemendur. Auk þess má nefna að boðskapur hans um að stærð hópa skipti ekki máli hefur verið harkalega gagnrýndur af skólamönnum um heim allan. Forsvarsmenn menntamála og yfirráðamenn skóla hafa hins vegar tekið boðskapnum tveim höndum og skorið niður kostnað í skólahaldi með því að stækka nemendahópa og fækka hópum. Allt auðvitað í boði Hattie's.

Má enginn falla?

Vissulega er það framsækið markmið að allir nái árangri og enginn falli. Falleg setning á blaði er nánast orðin tóm ef stefnunni er ekki fylgt úr hlaði með markvissri áætlun og fyrirheitum um (kostnaðarsamar) úrbætur á ýmsum sviðum. Nema auðvitað að ásetningurinn sé sá að „minnka kröfur“ svo að flestir nái einhvers konar árangri, sem enginn kærir sig um að skilgreina neitt nánar. Enginn þorir að kannast við þann krógann – pressan er einfaldlega sett á kennara sem ekki vilja eiga „sök“ á slælegu gengi sumra nemenda sinna. Kennslan orðin að samkeppnisgrein.

Það liggur morgunljóst fyrir að framhaldsskólar landsins munu horfa fram á mikla þrengingatíma á næstu árum enda mun ríkisvaldið gera sitt ýtrasta til að skera niður kostnað í opinbera geiranum og „auka hagkvæmni“. En hverjir eru líklegustu fórnarlömb aukinnar hagkvæmni í skólakerfinu? Þeir sem lakast standa; gömul sannindi og ný.

En Pawel svarar því engan veginn hversu langt hann vill ganga í „minnkuðum kröfum“ svo að flestir nái árangri. Hvar liggja þolmörkin? Hver er krafa samfélagsins? Enginn hefur svarað þessum spurningum af neinu viti. Í þessu sambandi er rétt að árétta að í lögum um framhaldsskóla er beinlínis kveðið á um að allt námsmat skuli byggjast á þeim markmiðum sem mælt er fyrir um í aðalnámskrá. Þar af leiðandi getur það tæpast verið á ábyrgð skólastofnana ef einstaka nemendur fara út af sporinu og tapa þræðinum m.a. vegna lélegrar ástundunar, slakrar mætingar eða persónulegra vandamála af ýmsu tagi. Auk þess hlýtur það að vera verulegt áhyggjuefni fyrir framhaldsskólana þegar nýjasta Pisa-könnunin leiddi í ljós að 30% drengja geta við lok grunnskólans ekki lesið sér til gagns. Heilum herskara „ólæsra“ nemanda er þeytt viðspyrnulaust inn í framhaldsskólana og allir eiga að ná árangri og enginn að falla. Hugtakið vankunnátta má ekki lengur heyrast, aðeins mismikil kunnátta.

Í rauninni er sama hvað við teygjum okkur langt niður, það verður alltaf hópur nemenda sem situr eftir. Nefnilega sá hópur nemenda sem ekki rís undir þeim kröfum sem til hans eru gerðar og fyrir því geta legið fjölmargar ástæður sem í rauninni er efni í annan pistil. Hvað er þá til bragðs að taka, teygja okkur enn lengra niður? Verður ljómi menntasúluritanna þá glæsilegri?

Hvers vegna er slæmt að endurtaka?

Ég hef enn ekki séð nein haldbær rök sem mæla sérstaklega gegn því að nemendur endurtaki námskeið. Þvert á móti ná fjölmargir nemendur varanlegri fótfestu í grein eftir að hafa endurtekið námskeið. Hvað er slæmt við endurtekningu? Að nemanda sé gerður óleikur með því að hann þurfi að endurtaka námskeið er hugsun sem alls ekki má leika lausum hala innan menntakerfisins enda stórvarasöm. Hvað með nemendur sem þreyta ökupróf, svo eitthvert einfalt dæmi sé tekið? Viljum við „minnka kröfur“ og hleypa þeim fákunnandi út í umferðina? Leika okkur að eldinum? Hleypa þeim áfram í meiraprófsnám? Hverjum er greiði gerður með því? Af hverju fara margir (nemendur) af fúsum og frjálsum vilja aftur á byrjendanámskeið? Svarið liggur í augum uppi: Þeir vilja læra undirstöðuatriðin betur. Sjálfur endurtók ég t.d. byrjendanámskeið í dansi af þeirri einföldu ástæðu ástæðu að ég vildi læra grunnsporin betur. Mér fannst það bara allt í lagi enda af gamla skólanum, nám er nefnilega þolraun!




Skoðun

Sjá meira


×