Skoðun

200 ára afmæli

Agnes M. Sigurðardóttir skrifar
Þann 5. júlí árið 1814 steig ungur skoskur maður á skipsfjöl í Danaveldi. Hann var á leið til Íslands í þeim tilgangi að sjá um að bókagjöf breska og erlenda biblíufélagsins til Íslendinga kæmist til skila. Ungi maðurinn hér Ebenezer Henderson og skrifaði ferðabók um dvöl sína hér og er hún talin með merkari ferðabókum um Íslandsferð höfundar. Hann hafði mikinn áhuga á því að koma Biblíunni til fólks á þeirra tungumáli enda hafði hann verið einn af frumkvöðlum stofnunar biblíufélaga í Bretlandi og Danmörku. Íslandsheimsókn hans leiddi til þess að rúmu einu ári síðar, eða þann 10. júlí árið 1815, var Hið íslenska Biblíufélag stofnað. Það starfar enn í dag og minnist 200 ára afmælis síns á þessu ári.

Í lágreistu húsi við Aðalstræti 10 í Reykjavík, sem mun vera elsta hús Reykjavíkur, var félagið stofnað, sem er elsta starfandi félag landsins. Aðalstræti 10 var þá kallað Biskupsstofan, en þar bjó Geir Vídalín, biskup Íslands, og þar var jafnframt skrifstofa hans. Hlutverk félagsins hefur frá upphafi verið að sjá þjóðinni fyrir hinni helgu bók á íslenskri tungu. Biblíufélagið hefur líka, eins og önnur biblíufélög heimsins, stutt við útgáfu Biblíunnar í öðrum löndum, en „markmið biblíufélaganna er: Að gera öllum kleift að eignast Guðs orð, Biblíuna, á þeirra eigin tungumáli, án kenningalegra skýringa eða túlkana, og á viðráðanlegu verði“ eins og segir á heimasíðu Biblíufélagsins, biblian.is.

Mótandi áhrif

Ýmsar útgáfur eru til af Biblíunni á íslensku, því allt frá því Oddur Gottskálksson sat í fjósinu í Skálholti og þýddi Nýja-testamentið sem gefið var út árið 1540 hefur Biblían verið þýdd aftur og aftur og nýjustu rannsóknir í biblíu- og þýðingarfræðum hafa verið hafðar til hliðsjónar. Elsta heildarútgáfa Biblíunnar á íslenska tungu er Biblían sem kennd er við Guðbrand Þorláksson Hólabiskup, sem út kom þar árið 1584. Sú nýjasta er útgáfan árið 2007, sem var gefin út af JPV útgáfu eftir margra ára þýðingarvinnu. Aðrar útgáfur má nefna, t.d. Þorláksbiblíu, Steinsbiblíu og Viðeyjarbiblíu, kenndar við útgefendurna og útgáfustaðinn.

„Einhverjum fellur eitthvað í skaut.“ „Rétta einhverjum hjálparhönd.“ „Einhverjum fallast hendur.“ Allt eru þetta orðatiltæki sem eru komin úr Biblíumáli, en þýðingar Biblíunnar og orðfæri hennar hafa haft áhrif á mótun íslensks málfars. Jón G. Friðjónsson tók þau saman og um þau má lesa í hinni fróðlegu bók hans „Rætur málsins“ sem kom út hjá Íslensku bókaútgáfunni árið 1997.

Sem trúarrit hefur Biblían haft mótandi áhrif á einstaklinga. Orð hennar hafa huggað og styrkt, veitt gleði og gefið kraft. Þannig er Biblían mörgum kær. Nú er hægt að finna Biblíuna á stafrænu formi á veraldarvefnum, en það er aldrei eins og að halda á bók í hönd, heildarriti. Biblíufélagið heldur áfram að sjá til þess að Biblían sé til á landi hér á íslenskri tungu eins og það hefur gert í 200 ár. Það er megintilgangur félagsins. Afmælisins verður minnst með ýmsum hætti á afmælisárinu og hægt er fylgjast með því á vef félagsins.




Skoðun

Sjá meira


×