Matur

Hátíðlegt kjúklingasalat

Kjúklingasalat
Kjúklingasalat

Sjónvarpskokkurinn Eyþór Rúnarsson gefur gómsætar uppskriftir á Stöð 2 fram að jólum. Í gær töfraði hann fram þriggja rétta matseðil sem kjörinn er á aðfangadag.

Kjúklingasalat

400 g úrbeinuð kjúklingalæri

2 stk. negulnaglar

2 stk. lárviðarlauf

4 einiber

1 tsk. laukduft

1 msk. salt

4 msk. ólífuolía

Setjið negulnaglana, einiberin og lárviðarlaufin saman í mortel og steitið þar til allt er orðið fín malað. Bætið restinni af kryddunum út í mortelið og blandið öllu saman. Takið ca 1 msk af kryddunum til hliðar til að nota í sósuna. Hellið olíunni yfir kjúklinginn og nuddið kryddunum vel inn í hann. Gott er að geyma kjúklinginn yfir nótt í ísskáp með kryddunum á. Bakið kjúklinginn við 200 gráður í 20 mín. Takið hann út úr ofninum og kælið.

Sósan fyrir kjúklinginn

250 g majónes

1 tsk. kryddblandan

1 msk. worchestershire sósa

½ hvítlauksrif (fínt rifið)

½ sítróna (safinn)

Sjávarsalt

Svartur pipar úr kvörn

Blandið öllu hráefninu saman í skál og smakkið til með saltinu og piparnum.

Smjördeigs botn

1 plata myllu smjördeig

hvítlauksolía

sjávarsalt

Hitið ofninn upp í 220 gráður. Skerið plötuna í 4 bita. Penslið smjördeigið með hvítlauksolíu báðum megin. Setjið deigið á bökunarplötu með smjörpappír á og svo aðra bökunarplötu yfir svo að deigið lyfti sér ekki. Bakið í 10-15 mín.

Meðlæti í og með salati

1 box sveppir

3 msk. steinselja (fínt skorinn)

1 pakki beikon

ólífuolía

1 poki klettasalat

Sjávarsalt

Svartur pipar úr kvörn

Ferskur parmesan

Skerið sveppina í 4-6 bita eftir stærð og steikið þá á pönnu upp úr ólífuolíunni þar til þeir eru orðnir gylltir að utan. Kryddið sveppina með salti og pipar og kælið. Skerið beikonið niður í litla bita og setjið á heita pönnu og steikið þar til beikonið er orðið stökkt. Hellið beikoninu á disk með þreföldu lagi af eldhúsrúllu á og látið kólna.

Samsetning:

Skerið kjúklinginn niður í bita og setjið hann í skál með sveppunum, og steinseljunni . Og smakkið blönduna til með salti og pipar eftir smekk.

Setjið smá klettasalat á smjördeigið og bætið svo vel af kjúklingasalatinu ofan klettasalatið. Bætið svo beikoninu ofan á og rífið parmesan yfir eftir smekk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×