Viðskipti innlent

Meira um stórar gjafir þessi jól

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Andrés Magnússon
Andrés Magnússon vísir/stefán
Jólaverslun hefur verið blómlegri í ár en í fyrra, að sögn Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu. Hann segir neytendur eyða meiru en undanfarin ár og að ljóst sé að svartur föstudagur hafði töluverð áhrif á verslunina.

„Ég held að við getum alveg sagt að hún hafi verið blómlegri í ár en í fyrra, þannig að þetta er allt í rétta átt. Mjög margar verslanir nýttu sér Black Friday í fyrsta sinn. Það var greinilegt þarna síðustu helgina í nóvember að neytendur kunnu mjög vel að meta þá miklu afslætti sem þá voru í boði," segir Andrés og bætir við að nokkur breyting hafi átt sér stað í jólaversluninni í ár.

„Almenningur er ekki bara að kaupa þessar hefðbundnu jólagjafavörur eða slíkar vörur heldur hefur almenningur verið að kaupa meira af stórum heimilistækjum, húsgögnum, húsbúnaði og ljósum. Það er aukning sem er greinileg þannig að samsetning verslunarinnar er töluvert öðruvísi en við höfum átt að venjast á þessum tíma árs."

Andrés segir þennan stíganda að vissu leyti í takt við það sem átti sér stað fyrir hrun. „Við erum kannski að einhverju leyti að sjá upptaktinn af einhverju svipuðu þó að það verði nú kannski, og ég vil segja vonandi ekki í sama mæli og var fyrir hrun. En ég vil segja að það sé kominn eðlilegri gangur í jólaverslunina, gangur eins og við viljum sjá hana vera þannig að fólk sé bara að gera eðlileg jólainnkaup. Engir öfgar, fólk er bara að gera vel við sig í mat og drykk," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×