Skoðun

Grágásarlög og aðgerð gegn fátækt fyrir 900 árum

Ólafur Ólafsson skrifar
Fyrstu skráð lög sem til eru fyrir Ísland eru Grágásarlög (Hafliðaskrá, Vígslóði) frá 1118 e. Kr. Í lögunum eru skráðar skyldur hreppstjóra og hreppsþings að framfæra ómaga og veita þurfamönnum sveitarstyrk, þ.e. að sinna fátækum. Hreppstjórar voru þó ekki einráðir í þessum efnum. Eftirlitið var falið hreppsdómi er í sátu 6 innanhreppsmenn, 3 fyrir sækjendur og 3 fyrir verjendur. Það var fylgst með þeim er ráða. Svipað eftirlit borgaranna komst ekki á hér á landi fyrr en með stjórnsýslulögum á 20. öldinni.

Ekki hafa fundist skráð lög um að hið opinbera ætti að sinna fátækum í öðrum löndum á þeim tíma, heldur var kirkjunni falið hlutverkið. Um 500 árum síðar eða 1601 voru skráð svipuð lög á Englandi. (Tillögur til sveitarstjórnarlaga, nefnd skipuð með konungsbréfi 1901. Gutenberg 1905).

Ljóst er að við Íslendingar vorum í fararbroddi annarra þjóða í Evrópu við slíkar aðgerðir. Orsakir þessara aðgerða má eflaust rekja til góðra samfélagstengsla og ábyrgðar ráðandi manna. Jafnframt að draga úr fátækt. Vissulega hefur margt mistekist í aðstoðinni við fátæka síðar meir en lögin voru skráð og samþykkt. Nú er spurt. Hver er orsök þess að nú er hafin aðför að launalægsta fólkinu, öryrkjum og eldri borgurum og ekki staðið við leiðréttinguna er lofað var fyrir kosningar 2013? Ég nefni einnig hækkun virðisaukaskatts á matvæli sem kemur verst niður á framangreindum hópum.

Stéttaskipting

Stuðlar hátt matarverð og íbúðarverð að stéttaskiptingu? Fregnir berast um að öryrkjar flytjist til minni kaupstaða á landsbyggðinni en versli lítið í kaupfélaginu. Kaupi fiskinn af sjómönnum og kjöt af bændum. Fólkið er ráðgott.

Í nýlegri grein í Læknablaðinu (próf. L. Steingrímsdóttur o.fl.) kemur í ljós að þeir efnaminni neyta minna hollustufæðis (grænmetis, ávaxta og grófs brauðs) en marktækt meira sykraða fæðu en efnað fólk enda dýr fæða. Tæp 60% öryrkja eiga erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman og 55% atvinnulausra. Slíkur munur hollustu og næringargilda í fæðuneyslu eftir efnahag hefur ekki komið fram áður í könnunum á Íslandi. Hátt matarverð getur stuðlað að stéttaskiptingu eins og komið hefur fram í mörgum erlendum fræðigreinum. Jafnræði þegnanna til heilbrigðs lífs var veigamikill þáttur í fyrri heilbrigðisáætlunum heilbrigðisyfirvalda.

Í heild búa nú fleiri börn við lélegt og dýrt húsnæði en félagar þeirra á Norðurlöndum (Save the children 2014)

Hvað hefur breyst? Skortir þá er stjórna samfélagsleg tengsl, samfélagsábyrgð og virðingu fyrir fólki sem tíðkaðist meðal almennings hér á landi jafnvel fyrir 900 árum?




Skoðun

Sjá meira


×