Viðskipti innlent

Skattstjóri hótar fimm þúsund félögum sektum

Ingvar Haraldsson skrifar
Skúli Eggert Þórðarson vonast til að skil ársreikninga batni verði frumvarp að lögum um ársreikninga samþykkt á Alþingi.
Skúli Eggert Þórðarson vonast til að skil ársreikninga batni verði frumvarp að lögum um ársreikninga samþykkt á Alþingi. fréttablaðið/anton
Ríkisskattstjóri hefur gefið þeim hlutafélögum sem ekki hafa skilað ársreikningi frest til að gera það fram til 7. janúar. Fylgi þau ekki fyrirmælunum gætu þau átt von á sektum sem numið geta allt að hálfri milljón króna.

Embættið sendi bréf þess efnis á þau 4.932 hlutafélög sem ekki höfðu skilað ársreikningi þann 7. desem­ber. Lögbundinn frestur hlutafélaga til að skila ársreikningi fyrir síðasta ár rann út þann 1. ágúst.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir skilin hafa farið batnandi síðustu ár. Tölurnar tala líka sínu máli þar. Sé litið nokkur ár aftur í tímann sést að 81,1 prósent skilaskyldra félaga höfðu skilað ársreikningi þann 13. desember miðað við 80,7 prósent á sama degi fyrir ári og 72,1 prósent á sama degi árið 2010.

Skúli segir lögbundin skil ársreikninga vera tilkomin svo aðilar sem eigi í viðskiptum við félög geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort þeir vilji eiga viðskiptin.

Skúli á von á því að skil batni nái frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra til laga um ársreikninga fram að ganga. Skúli bendir á að samkvæmt því verði meðal annars heimildir til þess að slíta félög sem ekki hafi verið áður. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×