Skoðun

Hafa karlar ekki sama rétt og konur á niðurgreiðslu?

Hannes Ívarsson skrifar
Þegar fólk veikist af lífsógnandi sjúkdómum, eins og krabbameini, koma Sjúkratryggingar á móts við sjúklinga með niðurgreiðslu á nauðsynlegum lyfjum og ýmsum tækjum og búnaði sem sjúklingar þurfa á að halda. Þar má t.d. nefna að konur sem veikjast af brjóstakrabbameini fá nauðsynleg hormónalyf niðurgreidd auk þess sem þær þurfa ekki að bera nema hluta kostnaðar við uppbyggingu brjósta, við kaup á hárkollum, tattúveringu og fleira því tengt. Að sjálfsögðu þykir engum þetta tiltökumál – enda brjóst og útlit stór hluti af sjálfsímynd kvenna.

En öðru máli virðist gegna um karlmenn sem greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli. Fylgikvillar slíkrar aðgerðar eru þeir að karlmenn þurfa að kljást við risvandamál og þurfa því að taka inn sérstakt lyf til að geta stundað kynlíf. Þessi lyf eru aftur á móti ekki niðurgreidd af Sjúkratryggingum og því verða karlmenn, sem fá þessa tegund krabbameins, að greiða að fullu þau lyf sem hjálpa þeim að þessu leyti.

Mánaðarskammtur af lyfjunum kostar karlmenn um 20–40 þúsund krónur. Varla þarf að taka fram að það er mikið áfall að greinast með krabbamein, bæði fyrir konur og karla. Þær afleiðingar sem blöðruhálskrabbamein hefur á kynlíf karla, þ.e. risvandamál, vega mjög að karlmennskuímynd karla, rétt eins og brjóstnám vegur að kvenímynd kvenna. Engu að síður erum við karlar, sem eigum við þetta vandamála að stríða eftir krabbameinsmeðferð, látnir greiða að fullu þau lyf sem nauðsynleg eru. Þá höfum við einnig þurft að greiða fullu verði fyrir sérstaka pumpu sem ráðlagt er að nota til að auka blóðstreymi að getnaðarlimnum. Sú pumpa kostar um 40.000 krónur. Sjálfur sótti ég um niðurgreiðslu á þessum búnaði og lyfjum en fékk synjun.

Risvandamál eru alltaf feimnismál hjá karlmönnum og því ekki algengt að þeir ræði þessi mál opinberlega. Engu að síður er nauðsynlegt að benda á þetta óréttlæti tryggingakerfisins og til þess að gera það þarf að tala tæpitungulaust um þessi mál. Kynlíf er einn af grunnþáttum í lífi allra og stór hluti af sjálfsmynd og sjálfstrausti karla er að geta stundað kynlíf. Það ætti því að vera lagt að jöfnu í heilbrigðiskerfinu að niðurgreiða hjálpartæki og lyf karlmanna til þess að stunda kynlíf – rétt eins og konum er hjálpað til þess að viðhalda kvenleika sínum með uppbyggingu brjósta. Annað er óréttlæti.




Skoðun

Sjá meira


×