Innlent

Hundur beit í andlit stúlku í Vogunum

Jakob Bjarnar skrifar
Sauma þurfti nokkur spor í andlit stúlkunnar, sem býr í Vogum. Hundurinn á myndinni tengist eðli máls samkvæmt fréttinni ekki.
Sauma þurfti nokkur spor í andlit stúlkunnar, sem býr í Vogum. Hundurinn á myndinni tengist eðli máls samkvæmt fréttinni ekki. mynd/gva/gettys
Stór hundur, blendingur, beit stúlku, sem er í 1. bekk í barnaskóla, í andlitið á föstudaginn. Móðir stúlkunnar vildi lítið um málið tala þegar Vísir leitaði viðbragða en staðfesti þetta þó og að það hafi þurft að sauma nokkur spor. „Hún er kát í dag stelpan. Hún hefur ekki verið hrædd við dýr hingað til, hún er hvekkt en ég hugsa nú að hún komist alveg yfir þetta.“

Móðirin hefur verið í sambandi við eiganda hundsins, sem er að sögn alveg miður sín. Hún er ekki búin að kæra atvikið og vildi í raun lítið tjá sig um málið við blaðamann; vill reyna að leysa þetta í góðu.

Ekki hefur tekist að komast til botns í því hvaða tegund um er að ræða né hver eigandinn er en samkvæmt heimildum Vísis er um að ræða stóran hund sem er til húsa í strjálbýlinu á Vatnsleysuströnd, er óskráður en gengur um laus, og fer um allt nágrennið í tíkarleit. Eftir atvikið hefur hins vegar ekkert til hans sést.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×