Innlent

Dauðsföll rakin til neyslu á hindberjum

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Mælt er með suðu frosinna, innfluttra hindberja.
Mælt er með suðu frosinna, innfluttra hindberja. NORDICPHOTOS/GETTY
Um sjötíu íbúar á þremur heimilum fyrir aldraða í Ljungby í Svíþjóð fengu uppköst fyrir um viku. Þrír íbúanna létust. Nú hafa rannsóknir leitt í ljós að rekja megi veikindin til neyslu á frosnum, innfluttum hindberjum sem voru í eftirrétti sem var framreiddur á heimilunum. Svokölluð nóróveira reyndist vera í hindberjunum.

Þrátt fyrir tilmæli sænsku matvælastofnunarinnar og reglur sveitarfélagsins voru hindberin ekki soðin.

Guðrún Sigmundsdóttir, yfirlæknir á sóttvarnasviði Embættis landlæknis, segir að ráðleggingar hér á landi séu óbreyttar frá því sem var og því enn í gildi. Mælt sé með suðu frosinna hindberja. „Eftir því sem ég best veit hefur þetta mál ekki verið mikið í umræðunni nýlega hérlendis en kemur alltaf upp af og til. Við höfum í samvinnu við Matvælastofnun mælt með hitameðhöndlun hindberja.“

Á vef Landlæknis segir að suða hafi hvorki áhrif á bragð né lit hindberja og því sé vel hægt að sjóða þau áður en þau eru notuð í eftirrétti og drykki („smoothies“ og „boost“).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×