Innlent

Dæmdar bætur frá Náttúrufræðistofu vegna neitunar um námsleyfi

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Pjetur
Héraðsdómur Norðurlands dæmdi bætur til handa manni sem höfðaði mál gegn Náttúrustofu Norðurlands vestra vegna þess að hann taldi sig annars vegar hafa átt rétt á sex mánaða launuðu námsleyfi frá störfum sínum og hins vegar taldi hann uppsögn sína hafa verið ólögmæta.

Manninum, sem heitir Þorsteinn Sæmundsson, voru dæmdar rúmlega 4 milljónir króna í bætur. Hann hafði gegnt starfi forstöðumanns stofnunarinnar.

Þorsteinn var ráðinn til Náttúrustofu Norðurlands vestra árið 2000 og var þá vísað til þess í kjarasamning að um réttindi hans giltu lög um réttindi og skyldur starfsmanna. Í þeim lögum er skýrt kveðið á um rétt til launaðs námsleyfis eftir ákveðinn tíma í starfi.

Náttúrufræðistofa vildi meina að lögin giltu ekki um Þorstein af þeim sökum að í síðari kjarasamningum var ekki sérstaklega vísað í fyrrnefnd lög. En atriði í ráðningarsamningi var af héraðsdómi Norðurlands talið gilda um síðari kjarasamninga. Neitun stofnunarinnar um að veita Þorsteini leyfið var ekki á málefnalegum rökum reist.

Ekki gert lítið úr fagmennsku né kunnáttu

Þá var einnig fallist á með Þorsteini að uppsögn hans hefði verið ólögmæt þar sem því var haldið fram að honum hefði verið sagt upp vegna bágrar fjárhagsstöðu stofnunarinnar. Þar sem Þorsteinn var starfsmaður hins opinbera og uppsögn hans því stjórnvaldsákvörðun telst þetta ekki gild ástæða til uppsagnar.

Auk þess hefur stofnunin ekki lagt upp laupana síðan honum var sagt upp og forstöðumaður starfar enn á fullum launum.

Ekki var fallist á að það hefði talist ólögmæt meingerð gegn Þorsteini að tekið var fram fyrir hendurnar á honum þegar hann hugðist lána hvítabjörn sem var í vörslu Náttúrustofnunar. Dómurinn taldi heldur ekki að uppsögnin sem slík hefði talist geta gert lítið úr fagmennsku Þorsteins eða kunnáttu hans.

Hér er dómurinn í heild sinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×