Innlent

Líkur á orkuskorti eftir tvö ár

Ingvar Haraldsson skrifar
Landsnet segir að virkja þurfi meira til að draga úr líkum á orkuskorti.
Landsnet segir að virkja þurfi meira til að draga úr líkum á orkuskorti. vísir/vilhelm
Landsnet telur líkur á aflskorti í íslenska raforkukerfinu eftir tvö ár ef raforkukerfið verður óbreytt.

Miðað við raforkuspá er talið að virkja þurfi 140 MW til viðbótar á næsta áratug svo anna megi aukinni orkuþörf almennings og fyrirtækja.

„Til að bregðast við þessu dugar þó ekki einungis að auka framleiðsluna heldur þarf einnig að styrkja flutningskerfið svo hægt sé að flytja raforkuna frá framleiðanda til notanda,“ segir í tilkynningu frá Landsneti.

Aflskorturinn sem líkur eru taldar á að verði miðar við að raforkukerfið anni ekki toppum í álagi klukkustund á ári.

Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar og tæknisviðs Landsnets, segir að ef af aflskorti verði þurfi að skerða notkun einhverra notenda. Fyrst verði farið í að draga úr orku til svokallaðra skerðanlegra notenda sem megi betur við skerðingum. En auðvitað er hættan alltaf sú að það geti bitnað á þeim sem eru ekki skerðanlegur,“ segir Sverrir.

Landsnet telur aukna hættu á aflskorti stafa af samspili aflþarfar raforkunotenda og bilunar vinnslueininga eða annars búnaðar í aflstöð. „Aflþörf er breytileg og að vissu leyti ófyrirsjáanleg,“ segir í tilkynningunni.

Orka vegna stóriðju er ekki með í útreikningunum þar sem hún fær orku afhenta beint frá flutningskerfi Landsnets.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×