Innlent

Segir fatlað fólk eins og skilnaðarbarn í vondum skilnaði

Una Sighvatsdóttir skrifar
Málefni fatlaðra fluttust frá ríki til sveitarfélaga árið 2011.
Málefni fatlaðra fluttust frá ríki til sveitarfélaga árið 2011.
Formaður Þroskahjálpar segir fatlað fólk sett í þá stöðu að upplifa sig sem bagga á samfélaginu. Slæmt sé ef fatlaðir geti ekki treyst því að fá sambærilega þjónustu milli sveitarfélaga.

Stöð2 sagði um helgina frá máli Sóleyjar Eysteinsdóttur, sextán ára fjölfatlaðrar stúlku, sem flutti ásamt fjölskyldu sinni frá Reykjanesbæ til Reykjavíkur í byrjun september. Yngri systkini hennar fjögur gengu öll beint inn í grunnskóla-og frístundakerfi borgarinnar en Sóley hefur enn hvergi fengið inni, hvorki í framhaldsskóla né dagvistun hjá borginni.

„Ekki flytja með fatlað barn, sextán til tuttugu ára á milli sveitarfélaga virðast vera skilaboðin,“ sagði faðir Sóleyjar, Eysteinn Jónsson, í samtali við fréttastofu.

Rúm fjögur ár eru liðin síðan málefni fatlaðra voru flutt frá ríki til sveitarfélaga. Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður samtakanna Þroskahjálp segir mörg dæmi um að fjölskyldur fatlaðra flytji milli sveitarfélaga í von um betri þjónustu annars staðar.

Bryndís Snæbjörnsdóttir formaður landssamtakanna Þroskahjálpar
Fatlaðir settir í þá stöðu að vera baggi á samfélaginu

„Við höfum orðið vör við það að þjónustan er ekki eins í öllum sveitarfélögum og auðvitað getur hún aldrei verið eins alls staðar, en við viljum að fólk hafi sambærilegt þjónustustig þannig að þú getir treyst því, þegar þú flytur frá einum stað í annan, að þú fáir sambærilega þjónustu við þar sem þú varst,“ segir Bryndís.

„Og núna í dag heyrum við sögur alls staðar að af landinu, ekki bara úr Reykjavík, um að það sé verið að draga saman í félagsþjónustu og þar með í þjónustu við fatlað fólk sem er algjörlega óásættanlegt vegna þess að lög um málefni fatlaðs fólks kveða á um ákveðinn rétt til þjónustu og hann er ekki leyfilegt að skerða.“

Bryndís segir jákvætt að þjónusta við fatlaða hafi færst í nærumhverfið. Hinsvegar hafi ríki og sveitarfélög enn ekki komið sér saman um kostnaðarskiptingu.

„Á meðan býr fatlað fólk við þær aðstæður að þau fá ekki þjónustuna sem þau þurfa  og þau eru, svona eins og ég vil stundum segja, hálfgert skilnaðarbarn í vondum skilnaði. Og fólk virðist ekki hugsa áður en það talar, þannig að fólk er sett í þá stöðu að vera einhvers konar baggi á samfélaglinu. Það er ekki gott.“


Tengdar fréttir

Segir mál Sóleyjar lýsandi dæmi um stöðuna í borginni

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir að mál sextán ára fjölfatlaðrar stúlku, sem hefur ekki fengið dagvistunarúrræði í Reykjavík síðan hún flutti þangað úr öðru sveitarfélagi fyrir þremur vikum, sé gott dæmi um að velferðarkerfið í Reykjavík brjóti á fötluðum einstaklingum. Fjölskyldur fatlaðra barna rekist oft á veggi hjá borginni.

Fjölfötluð stúlka fær hvorki dagvistun né skólavist í Reykjavík

Foreldrar sextán ára fjölfatlaðrar stúlku, sem nýlega flutti til Reykjavíkur úr öðru sveitarfélagi, segja velferðarkerfið í borginni hafa brugðist dóttur sinni, en hún fær þar hvorki dagvistun né skólavist. Þau telja brotið á mannréttindum hennar og ætla í mál við borgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×