Innlent

Fullyrðingin „í fyrsta sinn á Íslandi“ skapar ósætti meðal vínáhugafólks

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fjölmargir hafa bent forsvarsmönnum veitingastaðarins á að aðrir staðir hafi leyft gestum að koma með sitt eigið vín. Því sé ekki verið að brjóta blað í sögu veitingastaða á Íslandi líkt og haldið sé fram.
Fjölmargir hafa bent forsvarsmönnum veitingastaðarins á að aðrir staðir hafi leyft gestum að koma með sitt eigið vín. Því sé ekki verið að brjóta blað í sögu veitingastaða á Íslandi líkt og haldið sé fram. Vísir/Getty
Veitingastaðurinn Le Bistro á Laugavegi býður gestum sínum að koma með sínar eigin vínflöskur og drekka með matnum sem pantaður er á staðnum. Staðurinn auglýsti á Facebook-síðu sinni að í fyrsta sinn á Íslandi væri þetta hægt. Margir eru því ósammála og hafa skapast athyglisverðar umræður í kjölfarið.

- BYOB -Í fyrsta sinn á Íslandi geturðu komið með hvaða flösku sem er á veitingastað (tappagjald 2990- per flaska);

Posted by Le Bistro on Wednesday, May 13, 2015
„Hugmyndin er að fólk geti nú komið með flösku sem það hefur til dæmis geymt lengi í safninu sínu eða keypt fyrir sérstakt tilefni og notið með vinum og góðum mat. Við erum að tala um kannski flott kampavín eða vín frá stórum húsum sem myndu kosta hálfan handlegg á veitingastað,“ segir í útskýringum á Fésbókarsíðu Le Bistro.

2990 króna gjald er tekið af hverri flösku sem opnuð er á staðnum. Skiptar skoðanir eru á gjaldinu en forsvarsmenn Le Bistro segja að um þjónustugjald sé að ræða. Minnt er á að nóg sé af góðu víni sem hægt er að kaupa á staðnum henti þjónustan viðkomandi ekki.

Í fyrsta sinn, eða hvað?

Fjölmargir hafa bent forsvarsmönnum veitingastaðarins á að aðrir staðir hafi leyft gestum að koma með sitt eigið vín. Því sé ekki verið að brjóta blað í sögu veitingastaða á Íslandi líkt og haldið sé fram.

„Leiðinlegt þegar veitingastaður fullyrðir eitthvað gegn sinni betri vitund.

Þeir vita vel, og þeim hefur ýtrekað verið bent á að Steikhúsið hafi boðið upp á þetta frá opnun,“ segir Þorgeir Valur Ellertsson ósáttur.

Forsvarsmenn Le Bistro svara að bragði og segjast vel vita af því að staðir víða opni flöskur fyrir viðskiptavini.

„EN við erum fyrst til þess að við vitum til að setja BYOB á matseðlinum.“

Fyrir þá sem ekki vita stendur BYOB fyrir Bring Your Own Bottle/Booze/Beer eða „Mættu með þína eigin flösku/áfengi/bjór“ í lauslegri íslenskri þýðingu.

Margir afar ánægðir

Fjölmargir virðast sérstaklega ánægðir með framtak Le Bistro, hvort sem um nýbreytni er að ræða eða ekki. Bent er á toppagjald á veitingastöðum í London þar sem verðið er frá 15 pundum og upp úr. Því sé 2990 krónur líklega sanngjarnt verð.

„Brilliant! Fyrir þá sem eru að mikla fyrir sér verðið mæli ég með að fólk skoði Vínseðla veitingahúsanna og vinbud.is og sjá að þetta er líklega alltaf ódýrara.“

Öðrum finnst verðið alltof hátt, „fáránlega dýrt,“ spyrja hvort ekki sé um brandara að ræða og einn tekur enn sterkar til orða: „Gott framtak, en gat nú verið að græðgin myndi skemma annars mjög góða hugmynd. Fáranlega dýrt.“

Segir staðinn rekinn af lygamörðum

Líklega er enginn gagnrýnni á framtak Le Bistro en athafnamaðurinn Halldór Högurður. Halldór, sem tekið hefur að sér ýmis verkefni í gegnum árin svo sem handritsgerð áramótaskaupa, segist hafa verið settur á bannlista á Facebook-síðu staðarins. Hann hafi bent á rangfærslu forsvarsmannanna og „var settur á bannlista med det samme.“

Mikil umræða hefur skapast í kjölfar gagnrýni Halldórs sem sjá má hér að neðan.

Væri gaman að vita hvort ég sé bannaður á Le Bistro veitinngastaðnum. Leiðrétti bull á Fasbókarsíðu þeirraum að þeir væ...

Posted by Halldór Högurður on Friday, May 15, 2015
Uppfært klukkan 14:10

Forsvarmenn Le Bistro hafa svarað gagnrýni Halldórs og má sjá svör þeirra í heild sinni hér að neðan.

Sæll Halldór,

í fyrsta lagi þá ætluðum við aldrei að banna þér að vera á síðunni okkar, það var ekki ætlunin allavega og biðjumst við afsökunar á því. Við getum bara ekki leyft hlekki yfir á síður annarra veitingastaða á síðunni okkar og því eyddum við athugasemdinni.

Varðandi athugasemdirnar þínar þá förum við stundum á staðinn sem þú talar um og okkur finnst hann algjör matar-perla og við mælum hiklaust með þeim.

Ég man sjálfur vel eftir tappagjöldum í Reykjavík, en þau hafa alltaf verið óskýr, eða allavega ekki birt. Nú eru veitingastaðir almennt farnir að bæta gegnsæi matseðlanna sinna.

Við vitum um staði sem eru með 5000 kr. í tappagjald, en það er þó ekki á matseðli þeirra. Því miður fundum við ekkert á vefsíðu Steikhússins né á matseðli þeirra síðast þegar við fórum svo við vitum ekki hvert verðið er þar. Við höfum hvergi séð tappagjöld á matseðlum annarra staða. Kannski er okkar hugmynd og framsetning að BYOB ekki sú besta, en markmiðið er að bæta þjónustuna smile emoticon

Við hvetjum til umræðu um mat og veitingahús á Íslandi. Það eru margir valkostir en þó enn tækifæri til vaxtar í þjónustu- og veitingaþjónustunni. Því miður vantar þó ekki aðeins vettvang til umræðu heldur fleiri faglærða til vinnu þar sem greinarnar eru að verða mikilvægar landsframleiðslunni.

Á bak við hvert fyrirtæki er andlit og persónu og hvetjum við þig til að hafa endilega samband beint við okkur, Arnór og Alex ef eitthvað er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×