Innlent

40 bátar losnuðu frá bryggju

Samúel Karl Ólason skrifar
Um 40 bátar losnuðu frá flotbryggjunni á rifi á snæfellnesi í óveðri í nótt. Um tólf björgunarsveitarmenn unnu eldsnemma í morgun að því að festa bátana og náðu að tryggja þá áður en illa fór.

Strandveiðar eru nýhafnar og því mikið af bátum við bryggjuna á Rifi. Í morgun tók að rigna og hvessa hressilega og segir Viðar Páll Hafsteinsson, formaður björgunarsveitarinnar Lífsbjargar að aðgerðir hafi gengið vel.

„Við vorum kallaðir út um sex leytið í morgun. Þá voru tveir bátar slitnir upp en héngu í einum að aftan. Með snörum viðbrögðum náðum við að tryggja þá aftur og ganga frá þeim. Svo vorum á fjórða tug báta sem að voru við flotbryggjuna og við þurftum að tryggja þó nokkurn hluta af þeim betur,“ segir Viðar.

Björgunarsveitarmenn  nutu liðsinnis eigenda bátanna og gekk það vel að sögn Viðars, þar sem gripið var til aðgerða skömmu eftir að bátarnir losnuðu. Engar skemmdir urðu á bátunum en björgunaraðgerðirnar tóku um tvo tíma.

„Það var hávaðarok þarna og grenjandi rigning. Svo er það dottið niður núna. Svona er þetta.“

Aðspurður hvort eitthvað hefði verið að setja út á hvernig gengið hafði verið frá bátunum segir Viðar svo ekki vera.

„Það gerir svona snöggan hvell og þegar að það eru svona margir bátar er átakið svo ofboðslegt á þessu að það getur farið svona.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×