Innlent

Áhugaljósmyndara gert að fjarlægja myndir af stúlku

Birgir Olgeirsson skrifar
Áhugaljósmyndarinn svaraði ekki erindum Persónuverndar.
Áhugaljósmyndarinn svaraði ekki erindum Persónuverndar. Getty
Persónuvernd hefur krafið áhugaljósmyndara um að fjarlægja ljósmyndir af stúlku af internetinu. Persónuvernd barst kvörtun frá stúlkunni 30. júlí í fyrra vegna birtingar á ljósmyndum af henni á vefsíðu en ábyrgðamaður síðunnar er umræddur áhugaljósmyndari.

Í kvörtuninni kom fram að stúlkan hefði reynt fyrir sér sem fyrirsæta og því haft samband við áhugaljósmyndarann sem óskað hafði eftir því að mynda stúlku sem hefðu áhuga á fyrirsætustörfum. Ljósmyndarinnar tók myndir af stúlkunni og birti þær síðan á netinu án hennar samþykkis og fjarlægði þær ekki þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hennar.

Fyrsta sem kom upp á Google

Sagði stúlkan jafnframt þetta sé fyrsta niðurstaða sem kemur upp þegar leitað er að nafni hennar í leitarvél og Google og taldi hún birtinguna skaða ímynd sína.

Persónuvernd bauð áhugaljósmyndaranum ítrekað að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar en engin svör bárust frá honum. Var hann enn fremur upplýstur um heimild Persónuverndar til beitingar dagsekta verði ekki farið að fyrirmælum stofnunarinnar.

Ekki í samræmi við lög

Niðurstaða Persónuverndar var því sú að stúlkan hefði ekki samþykkt umrædda birtingu ljósmynda af sér á vefsíðunni og af þeirri ástæðu taldi Persónuvernd að ekki sé til staðar fullnægjandi heimild fyrir vinnslu áhugaljósmyndarans á persónuupplýsingum um stúlkuna samkvæmt lögum.

Var því áhugaljósmyndarinnar krafinn af Persónuvernd um að eyða öllum persónuupplýsingum um stúlkuna af síðunni fyrir 1. janúar 2015. Var sá úrskurður kveðinn upp 17. desember síðastliðinn en hann var birtur á vef Persónuverndar í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×