Skoðun

Þetta gátum við!

Guðrún Högnadóttir skrifar
Þegar miðlar heims nærast á slæmum fréttum og samtöl okkar sækja í hálftóma glasið kann okkur að finnast verkefni dagsins óyfirstígan­leg. Hörmungarnar fyrir botni Miðjarðarhafs eru allt í einu orðnar daglegur hluti af evrópskum veruleika; vantrú fjöldans á íslensk stjórnmál birtist ítrekað í könnunum og kjörsókn; að ógleymdri biðinni endalausu eftir sumrinu sem sveik suma. Aftur.

Hvernig eigum við að hafa áhrif á gang mála þegar verkefnin eru þetta yfirþyrmandi? Stöndum við vanmáttug frammi fyrir áskorunum dagsins?

En höfum við virkilega þetta lítil áhrif? Hugsum aðeins til baka.

Vissir þú að á aðeins 45 árum tókst heimsbyggðinni að lengja meðallífaldur úr 48 árum í 66 ár? Þetta tókst okkur með betri lífskjörum, framförum í heilbrigðisfræðum og öðrum lýðheilsufræðilegum verkefnum samkvæmt CDC.

Vissir þú að á aðeins 25 árum tókst okkur að minnka ungbarnadauða um helming eða úr 91 í 41 barn sem deyr fyrir 5 ára afmælið sitt fyrir hver 1.000 sem fæðast. The World Bank metur það svo að við höfum bjargað lífi 48 milljóna barna um heim allan frá aldamótum m.a. með bættum sýkingavörnum, heilbrigðisþjónustu, næringu og aðgangi að hreinu vatni.

Frá 1990 tókst okkur að lækka um helming tíðni alvarlegrar fátæktar. Fyrsta þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna er einmitt að enda birtingarmynd fátæktar alls staðar, enda lifir enn einn af hverjum fimm íbúum í þróunarlöndum af minna en 160 krónum daglega.

Hér heima tókst okkur á nokkrum áratugum að útrýma berklum, draga verulega úr reykingum, minnka svo um munar fordóma gagnvart samkynhneigðum, virða betur framlag beggja kynja, efla menntun, rækta heims­klassa íþróttamenn og tónlistarmenn, færa okkur á methraða frá því að vera algjörlega háð náttúruauðlindum, og stíga öldur efnahags ólgusjós þannig að eftir er tekið. Hverju gætum við áorkað á næstu fimm árum?

Með samstilltu átaki flytjum við fjöll. Og sem betur fer erum við alltaf með auga á næsta fjalli sem við þurfum að klífa saman: umhverfismálin, heimsfriður, útrýma fordómum, tryggja enn meiri jöfnuð og tækifæri fyrir alla.

Lykilatriði í öllum framförum er að læra og upplýsa. Að halda fast í þá mynd af heimi sem við viljum búa í. Einsetjum okkur breytingar góðs. Við berum öll ábyrgð á góðum heimilum, góðum vinnustöðum, góðum heimi.

Og mundu svo að sólin leynist í hjarta þínu.




Skoðun

Skoðun

76 dagar

Erlingur Sigvaldason skrifar

Sjá meira


×