Skoðun

Plan óskast!

Brynhildur Björnsdóttir skrifar
Að vera atvinnurekandi eða stjórnandi fyrirtækis á Íslandi er dálítið eins og að leika aukahlutverk í spennumynd – að manni óspurðum og án þess að hafa fengið handritið í hendurnar. Í stað þess að geta gert langtímaplön og áætlanir – fer mesta púðrið í að spyrja sig: „Hvað gerist næst?“

Atvinnurekstur krefst þess að hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir – þar sem forsendur og leikreglur gilda í meira en eitt ár eða í besta falli eitt kjörtímabil. Raunin er þó sú að stjórnvöld skrifa leikreglur atvinnurekenda jafnóðum og halda þeim þannig í magnþrunginni spennu um hvað sé næst á stefnuskránni.

Sem dæmi herma nýjustu fréttir að nú sé aftur á döfinni að slíta formlega aðildaviðræðum við Evrópusambandið. Þó það séu auðvitað skiptar skoðanir á kostum og göllum aðildar innan atvinnulífsins telja um 60% aðildafyrirtækja innan Félags atvinnurekenda og Samtaka atvinnulífsins að halda skuli áfram viðræðum – áður en valmöguleikinn sé sleginn út af borðinu. Þá telja aðeins 19% félagsmanna í FA telja íslensku krónuna geta verið framtíðargjaldmiðil landsins. Af augljósum ástæðum. Samningaviðræður eru einn af máttarstólpum viðskipta og samfélagsins í heild sinni. Hvort sem það fjallar um matseðil vikunnar á heimilinu, launakröfur starfsmanna, samstarf fyrirtækja eða þjóða. Til þess að skapa víðtæka sátt – þarf að fara fram samtal. Ávinningurinn af því að slíta viðræðum áður en niðurstaða liggur fyrir – er enginn. Þvert á móti útilokar það alla möguleika leikmanna á að fá tækifæri til að meta heildaráhrif mögulegs samnings sem myndi mögulega draga úr óvissu íslenskra atvinnurekenda, auka tiltrú erlendra fjárfesta á íslenskum fyrirtækjum og gefa okkur einhverja mynd af því hvernig sviðsmyndin myndi líta út næstu árin.

Til að íslenskt atvinnulíf geti verið samkeppnishæft til framtíðar þarf að auka útflutningsverðmæti í greinum sem byggja ekki bara á takmörkuðum auðlindum. Til þess að þessi fyrirtæki geti náð að blómstra og skila samfélaginu virðisauka – þurfum við heildstæða stefnu. Framtíðarsýn sem nær lengra en eitt kjörtímabil.

Sem leikmaður í þessari spennusögu óska ég því eftir handritinu. Hvað er planið?!




Skoðun

Sjá meira


×