Skoðun

Staðsetning Landspítala

Birgir Guðjónsson skrifar
Staðsetning nýs Landspítala mun undirritaðan engu skipta varðandi vinnu og vonandi ekki þjónustu en ekki verður komist hjá því að heyra umræðuna og finnst undirrituðum sem skattborgara alveg dæmalaus rök þeirra sem verja áframhaldandi staðsetningu við Hringbraut. Haldið hefur verið fram að ráðgjafar hafi víða verið leitað og ráðlagt að best væri að vera um kyrrt á Hringbraut, endurnýta og endurnýja sem mesta af eldri byggingum. Það væri ódýrast og hagkvæmast.

Þess hefur greinilega verið vel gætt að leita ekki til Svía í þetta skiptið varðandi ráðgjöf en þeir eru nú að endurbyggja Karolinska háskólasjúkrahúsið, það fremsta í Svíþjóð og eitt af þeim fremstu í Evrópu. Í boðsferð til Karolinska árið 2010 var mér bent á hvar upphaflega sjúkrahúsið hefði verið inni í borginni, en starfsemi var einnig í Solna. Eins og fram kemur á vefsíðum Karolinska hefur meginháskólasjúkrahúsið verið í Huddinge talsvert fyrir sunnan Stokkhólm frá 1972, en byggja ætti nýtt í Solna norðvestur af Stokkhólmi.

Í boðsferð aftur sl. haust til Karolinska í Huddinge mátti sjá upplýsingar um hversu byggingu nýja sjúkrahússins í Solna miðar og að stefnt sé að því að það verði opnað í haust.

Á vefsíðu þess „nyakarolinskasolna.se“ má sjá að meginrökin fyrir byggingu nýja sjúkrahússins séu að hagkvæmara hafi þótt að reisa nýjan spítala fremur en að endurbyggja og endurnýja núverandi byggingu í Huddinge, eða á ensku, „…more cost effective, compared to renovating and refurbishing the present facilities“.

Hvenær fara íslensk stjórnvöld að segja rétt frá?

Í núverandi umræðum hefur því einnig verið haldið fram að núverandi staðsetning sé hagkvæm vegna almenningssamgangna! Hafa þessir ráðmenn virkilega aldrei verið á ferðinni á Kringlumýrar- eða Miklubraut á morgnana eða síðdegis þegar menn eru á leið í vinnu eða heim? Fótgangandi maður er oft fljótari en bílar.

Gæði sjúkrahúss ráðast ekki af staðsetningu, nýbyggingu og nýjasta tækjakosti, heldur miklu fremur af starfsmannavali og mikilvægasti mælikvarðinn er aðsókn unglækna þangað til sérnáms.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×