Viðskipti innlent

Skattafrádráttur til hlutabréfakaupenda

Sæunn Gísladóttir skrifar
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, vill að skattaívilnanir nái til fjárfestinga í félögum sem skráð eru á markaði, eins og Nasdaq First North.
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, vill að skattaívilnanir nái til fjárfestinga í félögum sem skráð eru á markaði, eins og Nasdaq First North. vísir/gva
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra hyggst leggja fram frumvarp um skattaívilnanir til einstaklinga vegna kaupa á hlutabréfum í litlum fyrirtækjum í vexti á þessum vetri. Kauphöllin vill innleiða skattafrádrátt fyrir einstaklinga til hlutabréfakaupa í skráðum félögum og er fjármálaráðuneytið með það mál í vinnslu.

Í ræðu sinni á tækni- og hugverkaþingi þann 4. desember síðastliðinn sagðist Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafa skoðað mögulegar útfærslur á beitingu skattaívilnana vegna hlutabréfakaupa í sprotafyrirtækjum.



Bjarni Benediktsson hyggst leggja fram frumvarp um skattafrádrátt til hlutabréfakaupa í sprotafyrirtækjum núna í vetur. Fréttablaðið/GVA
„Ég hef skoðað mögulegar útfærslur á beitingu slíkra ívilnana, sérstaklega hvernig hægt sé að koma í framkvæmd skattaívilnunum til einstaklinga vegna kaupa á hlutabréfum í litlum fyrirtækjum í vexti en í okkar vinnu komu fram hugmyndir að tilteknum skilyrðum, sem slík fjárfesting þarf að uppfylla, sem snúa að fjárfestingunni sjálfri, formi félagsins sem fjárfest er í og svo skilyrðum sem einstaklingurinn sjálfur þarf að uppfylla til að fá afsláttinn," sagði hann á þinginu. Unnið verður að gerð frumvarps á grunni vinnu starfshóps um þessi mál og er það áætlun Bjarna að leggja það fyrir þingið á þessum vetri.

Fram kom á síðasta ári í skýrslu Kauphallarinnar, Aukin virkni og gagnsemi íslensks verðbréfamarkaðar, um tillögu á úrbótum að áhugi væri á því að endurvekja skattafrádrátt fyrir einstaklinga vegna hlutabréfakaupa sem ríkti fyrir hrun. Þar segir að skattafrádráttur væri til þess fallinn að hvetja til sparnaðar og fjárfestingar í íslensku atvinnulífi og að einstaklingar héldu hlutabréfum til lengri tíma.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, telur tillögur starfshópsins vera skref í rétt átt og að skattafrádráttur fyrir einstaklinga vegna hlutabréfakaupa væri til hagsbóta fyrir bæði almenning og atvinnulíf. 

„Að okkar mati er eðlilegt að ákvæðin um ívilnanir endurspegli leiðbeiningar eftirlitsstofnunar ETFTA þar sem bent er á að þær ættu að ná til fjárfestinga í félögum sem skráð eru á markaðstorgum, eins og Nasdaq First North. Þannig yrðu allar nauðsynlegar upplýsingar uppi á borðum fyrir fjárfesta. Þessi aðgerð myndi greiða fyrir aðgangi fyrirtækja að fjármagni og stuðla að vexti. Hún yki að sama skapi sparnaðarmöguleika fjárfesta og hvetti til langtímafjárfestingar. Auk þess er gert ráð fyrir að um tiltölulega lágar fjárhæðir yrði að ræða fyrir hvern einstakling þannig að áhættu yrði stillt í hóf,“ segir Páll. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×