Viðskipti innlent

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að hverfa frá hækkun húsnæðisbóta

Bjarki Ármannsson skrifar
Í úttekt AGS er stuðningur íslenskra stjórnvalda vegna húsnæðismála sagður gagnast húsnæðiseigendum en ekki leigjendum.
Í úttekt AGS er stuðningur íslenskra stjórnvalda vegna húsnæðismála sagður gagnast húsnæðiseigendum en ekki leigjendum. Vísir/Andri Marinó
Viðskiptaráð Íslands segir úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á skatt- og bótakerfinu á Íslandi áfellisdóm yfir ríkjandi húsnæðisstefnu. Ráðið hvetur stjórnvöld til að hverfa frá áformum um hækkun húsnæðisbóta samkvæmt nýju frumvarpi félagsmálaráðherra, sem sagt er ganga þvert á ráðleggingar AGS.

Í úttekt AGS er stuðningur íslenskra stjórnvalda vegna húsnæðismála sagður afar flókinn og hvetja til hárrar skuldsetningar og umframeyðslu heimila. Þá gagnist hann fyrst og fremst húsnæðiseigendum en ekki leigjendum og nái þannig illa markmiði sínu um hjálp við þá efnaminni.

„Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að hverfa frá núverandi áformum um hækkun húsnæðisbóta,“ segir í frétt á vefsíðu Viðskiptaráðs um úttektina. „Þess í stað ætti að draga úr slíkum stuðningi og taka fremur upp beinan fjárhagsstuðning sem einskorðast við efnaminni fjölskyldur.

Þá ætti að fækka þeim stuðningskerfum sem starfrækt eru á húsnæðismarkaði, líkt og úttekt AGS mælir með. Með þeim hætti mætti spara umtalsverða opinbera fjármuni og tryggja betur að aðgerðir hins opinbera skili tilætluðum árangri.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×