Bandaríkjamennirnir Troy Merritt og Kevin Chappell leiða fyrir lokahringinn á Quicken Loans National mótinu sem fram fer á Robert Trent Jones vellinum en þeir eru á 14 höggum undir pari.
Það var fyrrnefndur Merritt sem stal senunni í dag en hann lék stórkostlegt golf og kom inn á 61 höggi eða tíu undir pari vallar.
Rickie Fowler kemur svo einn í þriðja sæti á 13 höggum undir pari en nokkrir kylfingar koma þar á eftir á 12 og 11 höggum undir pari, meðal annars sigurvegari síðasta árs, Justin Rose.
Eftir frábæra frammistöðu á fyrstu tveimur hringjunum missti Tiger Woods heldur betur flugið á þriðja hring í kvöld en hann lék á 74 höggum eða þremur yfir pari.
Woods sem hafði sýnt gamalkunna takta framan af móti hrundi því niður skortöflunna en hann deilir 42. sæti á samtals fimm höggum undir pari fyrir lokahringinn.
Lokahringurinn á morgun verður eflaust æsispennandi enda margir sterkir kylfingar í toppbaráttunni en bein útsending hefst á Golfstöðinni klukkan 17:00.
