Keppendur á Shriners mótinu sem hófst í gær nýttu sér frábærar aðstæður til þess að skora vel á TPC Summerlin vellinum en eftir fyrsta hring er urmull kylfinga á sex og sjö höggum undir pari.
David Hearn, Mark Hubbard og Michael Thompson eru allir á sjö undir pari en 98 kylfingar af þeim 140 sem hófu leik léku fyrsta hring undir pari.
Mörg af stærstu nöfnum PGA-mótaraðarinnar taka sér frí þessa helgi og safna kröftum fyrir komandi átök.
Bandaríkjamaðurinn vinsæli, Rickie Fowler, er þó meðal þátttakenda en hann byrjaði afar illa og er jafn í 117. sæti á einu höggi yfir pari.
Það var þó skárra heldur en skorið hjá Argentínumanninum Emiliano Grillo sem sigraði á Frys.com um síðustu helgi en hann lék fyrsta hring á þremur yfir pari og er meðal neðstu manna.
Bein útsending frá öðrum hring á TPC Summerlin hefst á Golfstöðinni klukkan 21:00 í kvöld.
