Viðskipti innlent

Gjaldþrotum fækkar og nýskráningum fjölgar

Sæunn Gísladóttir skrifar

Hlutfallsleg fjölgun nýskráninga er mest í fasteignaviðskiptum, 52 prósent á síðustu 12 mánuðum.
Hlutfallsleg fjölgun nýskráninga er mest í fasteignaviðskiptum, 52 prósent á síðustu 12 mánuðum. Vísir/Vilhelm
Nýskráningum einkahlutafélaga síðustu 12 mánuði, frá desember 2014 til nóvember 2015, hefur fjölgað um 11 prósent í samanburði við 12 mánuði þar á undan. Alls voru 2.272 ný félög skráð á tímabilinu. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Hlutfallsleg fjölgun nýskráninga er mest í fasteignaviðskiptum, 52 prósent á síðustu 12 mánuðum, en meðal annarra greina þar sem nýskráningum hefur fjölgað má nefna rekstur gististaða og veitingarekstur (29 prósent) og framleiðslu (25 prósent). Mest hlutfallsleg fækkun nýskráninga síðustu 12 mánuði var í flutningum og geymslu, eða um 12 prósent borið saman við næstu 12 mánuði þar áður.

Gjaldþrot einkahlutafélaga síðustu 12 mánuði, frá desember 2014 til nóvember 2015, hafa dregist saman um 24 prósent í samanburði við 12 mánuði þar á undan. Alls voru 611 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á tímabilinu. Hlutfallslega hefur gjaldþrotum í fjármála- og vátryggingastarfsemi fækkað mest, eða um 40 prósent á síðustu 12 mánuðum, auk þess sem gjaldþrotum í bæði flutningum og geymslu og sérfræðilegri, vísindalegri og tæknilegri starfsemi hefur fækkað um 35 prósent frá fyrri 12 mánuðum. Fasteignaviðskipti voru eini atvinnugreinabálkurinn þar sem gjaldþrotum fjölgaði á tímabilinu, um 8 prósent borið saman við 12 mánuði þar á undan.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×