Viðskipti innlent

Persónuafsláttur hækkar um tvö prósent

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Valli
Persónuafsláttur mun hækka um tvö prósent um áramótin, í samræmi við gildandi lög um tekjustkatt og hækkun vísitölu neysluverðs. Þar að auki mun tryggingagjald lækka um 0,14 prósentustig. Persónuafsláttur verður því 623.042 krónur á næsta ári sem samsvarar 51.920 krónur á mánuði. Hann hækkar um 12.217 krónur á milli ára.

Í tilkynningu á vef Fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir að skattleysismörk tekjuskatts og útsvars verði 145.659 krónur á mánuði, sé tillit tekið til fjögurra prósenta lögbundinnar iðgjaldagreiðslu launþega í lífeyrissjóð.

Skattþrepum verður fækkað úr þremur í tvö í tveimur áföngum og fyrri áfanginn kemur til framkvæmda á árinu. Í fyrsta þrepi lækkar skatthlutfall tekjuskatts um 0,18 prósentustig,l úr 22,86 prósentum í 22,68 prósent. Í öðru þrepi lækkar hlutfallið um 1,4 prósentustig, úr 24,3 prósentum í 23,9 prósent. Þriðja þrepið helst óbreytt í 31,8 prósentum en þrepið sjálft lækkar í 770 þúsund krónur.

Tryggingagjaldið lækkar eins og áður segir um 0,14 prósentustig og verður það 7,35 prósent. Það gjald er greitt af launagreiðendum og reiknast af heildarlaunum launamanna á tekjuári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×