Viðskipti innlent

ATMO Select fær 200 milljón króna fjármögnun

Sæunn Gísladóttir skrifar
Ívar Kristjánsson er framkvæmdastjóri ATMO Select. Hann var einn af stofnendum CCP.
Ívar Kristjánsson er framkvæmdastjóri ATMO Select. Hann var einn af stofnendum CCP. Mynd/aðsend
ATMO Select, sem sérhæfir sig í stefnumarkandi tónlistarmiðlun á fyrirtækjamarkaði, hefur tryggt sér fjármögnum upp á 200 milljónir króna frá íslenska fjárfestingasjóðnum Brunni vaxtarsjóði.

ATMO Select er með samninga við fjölda fyrirtækja á Norðurlöndunum, Benelux svæðinu og Þýskalandi, segir í tilkynningu.

Tónlistarþjónusta ATMO Select gerir rekstraraðilum í verslunar- og þjónustufyrirtækjum kleift að innleiða tónlistardagskrá sem styður við markmið fyrirtækisins ásamt að styrkja ímynd fyrirtækisins og efla upplifun viðskiptavina þess.

Tónlistin er sérvalin og klæðskerasniðin eftir fyrirframgerðri þarfagreiningu og úttekt á vörumerki og markhóp hvers fyrirtækis sem nýtir sér tónlistarþjónustuna. Einnig býður ATMO Select upp á auglýsinga- og tilkynningakerfi sem gerir verslunareigendum kleift að ná eyrum viðskiptavina sinna á meðan þeir eru í verslunarrýmunum.

„Það styrkir félagið gífurlega að fá Brunn vaxtarsjóð inn í hluthafahópinn á þeim tíma sem við erum að vaxa á erlendum mörkuðum. Við höfum þróað einstaka streymistækni og tónlistarþjónustu fyrir verslunar- og þjónusturými sem hefur jákvæð áhrif á líðan og neysluhegðun viðskiptavina”, er haft eftir Ívari.

„Tæknilausnin okkar samanstendur af hugbúnaði og vélbúnaði sem tengist skýjalausn og miðlar til viðskiptavina okkar sérsniðinni tónlistardagskrá sem hönnuð hefur verið til að styðja við þá upplifun sem þeir vilja skapa í verslunar- og þjónusturýmum sínum. Okkar lausn er lokuð, þ.e.a.s. viðskiptavinir fá sérhannaðan lokaðan spilara sem sér um tónlistarstreymið.  Við notfærum okkur svokallaða „store and forward“ tækni sem gerir lausnina nánast ónæma fyrir nettruflunum - ólíkt mörgum þeim lausnum sem við höfum séð á markaðnum sem eru bæði berskjaldaðar fyrir truflunum á netsambandi og inngripi starfsmanna,” segir Ívar Kristjánsson, framkvæmdastjóri ATMO Select í tilkynningu.

„Það eru meira en 7 milljónir verslana í Bandaríkjunum og Evrópu og eru tækifærin mikil þar sem tónlistarþjónustunni á þessum markaði er oft illa sinnt. Áskorunin sem blasir við fyrirtækjum eins og ATMO Select er að sannfæra fyrirtæki um mátt tónlistar til að hafa áhrif á neytendur, en mjög fáir eru að nýta sér þann möguleika til fulls.”, segir Árni Blöndal, fjárfestingastjóri Brunns vaxtarsjóðs.

Hér fyrir neðan má sjá kynningarmyndband frá fyrirtækinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×