Viðskipti innlent

Húsnæðislán verði tengd við laun fremur en verðbólgu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lars Christensen alþjóðahagfræðingur.
Lars Christensen alþjóðahagfræðingur. Vísir
Horfa ætti frá kerfi verðtryggðra húsnæðislána og taka upp kerfi tekjutengdra húsnæðislána í staðinn, að mati Lars Christensen alþjóðahagfræðings. Hann skrifar grein um þetta í Markaðinn, fylgirit Fréttablaðsins, í dag. Hann telur að með þessu mætti draga úr hættunni sem stafar af uppsveiflum og hruni í íslenska hagkerfinu og minnka áhættuna af bankakreppum framtíðarinnar.

„Ef verðbólga eykst óvænt vegna jákvæðs eftirspurnarhnykks í hagkerfinu þá er ekkert meiriháttar vandamál á ferðinni. Ímyndið ykkur til dæmis að létt sé á peningamálastefnunni svo að verðbólga aukist – það myndi sjálfkrafa leiða til þess að húsnæðisskuldir myndu hækka, en þar sem létt hefði verið á peningamálastefnunni myndi atvinna sennilega aukast og launaskrið yrði hraðara og fasteignaverð myndi mjög sennilega einnig hækka,“ segir Lars. Verðbólga af völdum aukinnar eftirspurnar myndi valda hækkun húsnæðisskulda. En þar sem laun og fasteignaverð hefðu einnig hækkað myndi það að öllum líkindum ekki valda neinum greiðsluerfiðleikum hjá heimilunum.

Verði aftur á móti svokallaður framboðshnykkur, þannig að hækkun verði á aðföngum eða minnkun á framleiðni eins og var 2008, þá geti það leitt til þess að þúsundir hemila lendi í greiðsluþroti. „Tökum aftur 2008 sem dæmi. Hnykkurinn olli því að atvinnuleysi rauk upp og verulega hægði á launahækkunum. Ef húsnæðisskuldir hefðu verið tengdar við laun þegar kreppan skall á hefði það valdið „sjálfvirkri“ lækkun húsnæðisskulda, sem hefði gert mikið til að vega upp á móti neikvæðum áhrifum lægri tekna og fallandi fasteignaverðs, og afleiðingin hefði sennilega orðið sú að mun færri heimili hefðu orðið gjaldþrota,“ segir Christensen.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×