Innlent

Stofn flugnabænda í Bolungarvík drapst

Svavar Hávarðsson skrifar
Ræktun fóðurskordýra er svar við fóðurþörf sem fylgir vaxandi fiskeldi.
Ræktun fóðurskordýra er svar við fóðurþörf sem fylgir vaxandi fiskeldi. nordicphotos/afp
Víur, ræktunarfélag fóðurskordýra, á Bolungarvík varð fyrir því óhappi á árinu að flugurnar sem félagið byggði starfsemi sína á drápust allar í vor, og gerðist það á þeim tíma þegar stofninn var sá eini á landinu. Því þurfti að flytja nýjan stofn inn til landsins. Hefur undirbúningur innflutningsins tekið töluverðan tíma vegna kvaða um sóttkví og innflutningsleyfi.

Þessar upplýsingar koma fram á heimasíðu fyrirtækisins þar sem er jafnframt tíundað að úr flugunni, eða lirfum svörtu hermannaflugunnar, verður unnið lirfumjöl fyrir eldisfisk.

Ræktun þeirra á Íslandi er að sögn aðstandenda fyrirtækisins með öllu örugg og engar líkur á að flugan geri sig heimakomna í íslenskri náttúru eða geri usla í mönnum eða dýrum.

Flugurnar sem fluttar eru inn koma úr stofni sem hefur verið í áraraðir vottaður sem laus við óværu og sjúkdóma.

„Óhappið undirstrikar mikilvægi þess að hafa að minnsta kosti tvo aðskilda stofna á lífi á hverjum tíma, og verður það fyrirkomulag að sjálfsögðu viðhaft þegar sóttkvínni á hinum nýja stofni verður aflétt,“ segir Gylfi Ólafsson, flugnabóndi og annar stofnenda.

Tilraunaræktun hófst í Bolungarvík haustið 2014. Í frétt fyrirtækisins segir að Vestfirðir séu ákjósanlegir fyrir starfsemina. Á svæðinu fellur til mikið af lífrænum úrgangi sem væri hægt að nýta í stað þess að flytja hann til annarra landshluta eins og gert er nú. Fiskeldi á svæðinu er mikið og fer vaxandi og þekking á öllum þáttum fiskeldis eykst óðfluga. Förgunarkostnaður og flutningskostnaður á fiskifóðri mun minnka snarlega. Þá er hægt að nýta ódýrt húsnæði í uppbyggingarferlinu, segja flugnabændur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×