Viðskipti innlent

Vill að sala LS Retail verði ógild og krefst bóta

Ingvar Haraldsson skrifar
Höfuðstöðvar LS Retail eru í Höfðatorgsturninum.
Höfuðstöðvar LS Retail eru í Höfðatorgsturninum. fréttablaðið/anton brink
Viti ehf., félag í eigu Aðalsteins Valdimarssonar fyrrverandi stjórnarformanns LS Retail, hefur höfðað dómsmál á hendur ALMC, gamla Straumi-Burðarási, og stjórnendum hans vegna sölu á íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu LS Retail til bandaríska fjárfestingarsjóðsins Anchor­age Capital Group síðasta sumar.

Viti telur kaupverðið hafa verið mörgum milljörðum undir raunverulegu virði félagsins.

„Verðmiðinn sem var settur á félagið var að okkar mati einn fjórði af raunvirði þess,“ segir Hildur Sólveig Pétursdóttir, lögmaður Vita í málinu.

LS Retail var í eigu LS Retail Holding sem Viti átti 6,9 prósenta hlut í á móti 93,1 prósents hlut ALMC.

Hildur segir að hægt hefði verið að fá mun hærra verð fyrir LS Re­tail. „Önnur mun hærri tilboð lágu fyrir í félagið,“ segir hún, máli sínu til stuðnings.

Í málinu er farið er fram á að salan verði ógilt auk kröfu um skaðabætur og innlausn á ákveðnu matsverði. Hinir stefndu hafa hins vegar farið fram á að málinu verði vísað frá dómi. Héraðsdómur Reykjavíkur mun taka afstöðu til frávísunarkröfunnar í febrúar næstkomandi.

Kaupréttarhafar, sem flestir eru lykilstjórnendur LS Retail, hafa stefnt sér inn í málið.

Auk ALMC og stjórnenda þess er kaupandanum Anchorage Capital Group stefnt til að þola dóm sem og Hoxton sem nú er skráður eigandi LS Retail.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×