Viðskipti innlent

1909, Múla og Hraðpeningum gert að greiða 250 þúsund króna dagsektir

ingvar haraldsson skrifar
Úrskurðurinn sneri meðal annars að Hraðpeningum.
Úrskurðurinn sneri meðal annars að Hraðpeningum. vísir/valli
Neytendastofa hefur lagt á 250 þúsund króna dagsektir á Neytendalán ehf. rekstaraðila 1909, Múla og Hraðpeninga.

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að kostnaður við lánshæfismat fyrirtækisins valdi því að lán fyrirtækisins fari umfram leyfilega hlutfallstölu kostnaðar, sem megi ekki nema meira en 50 prósent að viðbættum stýrivöxtum.

Neytendastofa lagði 750 þúsund króna stjórnvaldssekt á fyrirtækið vegna athæfisins í júní árið 2014. Neytendastofa taldi að skilmálar Neytendalána brytu gegn lögum um neytendalán með því undanskilja kostnað af framkvæmd lánshæfismats við útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnað og með því að innheimta of háan kostnað af lánum, umfram 50 prósenta hámarkið.

Ákvörðunin var kærð til áfrýjunarnefndar neytendamála. Nefndin staðfesti ákvörðun Neytendastofu þann 21. nóvember á síðasta ári.

Með bréfi 21. október síðastliðin vildi stofnunin fá upplýsingar um það með hvaða hætti farið hafi verið að ákvörðun Neytendastofu og úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála. Í bréfinu kom fram að af skilmálum Múla, Hraðpeninga og 1909, sem og þeim ábendingum sem Neytendastofu hafi borist frá neytendum, virðist ekki hafa verið gerðar breytingar á þeim kostnaði sem félagið innheimti af þjónustu sinni eða hvernig útreikningi árlegrar hlutfallstölu kostaðar sé háttað.

Ekkert svar barst og því hefur Neytendastofa ákveðið að leggja fyrrnefndar dagsektir á fyrirtækið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×