Innlent

Götusmiðjukonur gera unga í vanda sjálfbæra

Sæunn Gísladóttir skrifar
Lýðheilsusetrið Ljósbrot býður ungur fólki sem glímir við margs konar vanda náms- og starfsráðgjöf. Fréttablaðið/Vilhelm
Lýðheilsusetrið Ljósbrot býður ungur fólki sem glímir við margs konar vanda náms- og starfsráðgjöf. Fréttablaðið/Vilhelm
Lýðheilsusetrið Ljósbrot er nýtt fyrirtæki sem býður ungu fólki á aldrinum 18 til 25 ára dagsmeðferð eða endurhæfingu. Prógrammið byggir á HOLOS-kerfinu sem lítur til manneskjunnar í heild sinni. Mikill áhugi er á því að sögn Elísabetar Gísladóttur, framkvæmdastjóra Lýðheilsusetursins, bæði af hálfu ungs fólks sem vantar aðstoð og fagfólks sem vill hjálpa.

Elísabet stofnaði Lýðheilsusetrið ásamt Ölmu Rut Lindudóttur og Kolbrúnu Ingibergsdóttur, allar höfðu þær unnið í Götusmiðjunni. Hugmyndin að prógramminu spratt upp þegar þeim varð ljóst að ekkert tæki við krökkum að vímuefnameðferð lokinni.

„Þau eru full af von og langar að takast á við lífið. Oft á tíðum eru þetta krakkar sem eru af annarri og þriðju kynslóð svokallaðra „kerfisfræðinga“, sem þekkja ekki mikið annað heldur en að þurfa á félagshjálp að halda,“ segir Elísabet. Markmiðið með prógramminu er að brjóta vítahringinn.

Lýðheilsusetrið er til húsa í Síðumúla og býður upp á þrjár átta vikna lotur sem eru miskrefjandi. „Við sækjum þau á morgnana, og þau fara í prógramm þar sem þau fá bæði sálgæslu, áfallahjálp og meðferð við fíkn. Síðan styðjum við þau með áherslu á næringu, hreyfingu, líðan og lífsstíl sem fylgir lýðheilsulegu markmiði,“ segir Elísabet.

Þátttakendum er meðal annars boðið upp á fjármálalæsi, líkamsrækt, listþerapíu, og náms- og starfsráðgjöf sem metur áhugasvið þeirra.

„Það er markmið okkar að þau verði sjálfbær eftir að þau koma frá okkur,“ segir Elísabet. Hún bætir við að þátttakendur hafi áhrif á að móta prógrammið. „Það eru margir sem koma að þessum pakka til að gera hann heilan og hann verður alltaf í þróun til að mæta nýjum kröfum.“

Elísabet Gísladóttir, framkvæmdastjóri Lýðheilsusetursins Ljósbrots.
Þjónustan er ekki einungis í boði fyrir ungt fólk með vímuefnavanda, heldur einnig fyrir krakka sem hafa til dæmis dottið út úr framhaldsskóla.

„Þjónustan er formlega að fara af stað um þessar mundir, en nú þegar eru fimm einstaklingar á fjórðu viku í lotunni,“ segir Elísabet.

Yfir þrjátíu sjálfboðaliðar, meðal annars læknar, áfengisfræðingar og félagsráðgjafar koma að starfseminni. Lýðheilsusetrið er fjármagnað af styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Næsta skref er að kynna starfsemina fyrir sveitarfélögum og ríkinu og leita til samninga við þau.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×